Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:42:16 (3843)

2002-01-31 14:42:16# 127. lþ. 67.3 fundur 321. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál., Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2001, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn, en sá viðauki fjallar um umhverfismál.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins um urðun úrgangs.

Fyrir utanríkismálanefnd hefur verið lögð álitsgerð Árna Páls Árnasonar hdl. sem hann vann að beiðni umhverfisráðuneytisins. Niðurstaða álitsins er m.a. sú að ákvæði tilskipunarinnar feli ekki í sér skilyrðislausa kröfu um hlutlæga ábyrgð á umhverfistjóni og var sá skilningur staðfestur af fulltrúum umhverfis- og utanríkisráðuneytis á fundi nefndarinnar. Tilskipunin gerir hins vegar ráð fyrir því að innstæða verði fyrir greiðslu kostnaðar við vöktun og lokun urðunarstaðar en gerir ekki kröfu um ábyrgðartryggingu vegna umhverfistjóns. Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina er ljóst að innleiðing tilskipunarinnar mun hafa í för með sér aukinn kostnað við vöktun urðunarstaða á landinu.

Nefndin mælir með að tillagan verði samþykkt.

Undir nál. skrifa: Tómas Ingi Olrich, Magnús Stefánsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Einar K. Guðfinnsson og Jónína Bjartmarz.