Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:45:17 (3845)

2002-01-31 14:45:17# 127. lþ. 67.3 fundur 321. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir ábendingu framsögumanns Samfylkingarinnar í þessu máli, Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Það er mjög mikilvægt að Alþingi geri sér grein fyrir því að þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er í raun stefnumörkun. Við ætlum að meðtaka hana en sem stefnumörkun verður að fylgja henni eftir á þann hátt sem þingmaðurinn hefur bent hér á. Ég var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls í utanrmn. en tók þátt í umfjöllun þess. Það er undirritað fyrirvaralaust af Þórunni Sveinbjarnardóttur og ég styð það jafnframt.

Mér finnst full ástæða til að nefna hvaða meginatriði verið er að festa hér í sessi með stefnumörkun og sem væntanlega verður lögfest fylgi umhvrn. þessu eftir, þ.e. að viðmiðanir og staðlar um að urðun fari fram við öruggar aðstæður og undir eftirliti, að stuðlað verði að endurvinnslu og endurnýtingu í enn ríkari mæli en áður, dregið verði úr magni og hættulegum eiginleikum úrgangs, að samræmdar aðferðir verði við móttöku úrgangs og hvernig loka skuli urðunarstað, jafnframt að rekstraraðili geri ráðstafanir í formi fullnægjandi trygginga vegna skuldbindinga við lokun urðunarstaða og að gjald sem tekið er fyrir förgun úrgangs dugi fyrir kostnaði við uppsetningu og rekstur stöðvar.

Gróft saman tekið má segja að þetta sé meginefni tilskipunarinnar sem EES-nefndin hefur gert að sinni.

En það sem kom fram hér í máli framsögumanns, og Þórunn Sveinbjarnardóttir gerði að umtalsefni, er það álit að ákvæði tilskipunar feli ekki í sér skilyrðislausa kröfu um hlutlæga ábyrgð á umhverfistjóni og sá skilningur var staðfestur af fulltrúum umhvrn. og utanrrn. á fundi nefndarinnar.

Þetta þýðir að tilskipunin gerir ráð fyrir innstæðu vegna greiðslu lokunar og kostnaðar við vöktun en ekki kröfu um ábyrgðartryggingu vegna umhverfistjóns.

Það vekur almennt til umhugsunar um stöðu okkar ef umtalsvert umhverfistjón verður af völdum einhverra aðila. Þá er ég ekki endilega að tala um þessa tilskipun. Því hefur verið komið á framfæri hér að umhvrn. verði að fara í það mál. En hvernig erum við stödd almennt ef umhverfistjón verður af völdum einhverra sem eru með einhvern tiltekinn rekstur eða bera tiltekna ábyrgð? Teljum við að slíkan kostnað eigi samfélagið sem slíkt ávallt að bera eða eiga þeir sem eru með einhvers konar starfsemi sem gæti valdið umhverfistjóni að bera einhverja ábyrgð sjálfir? Þetta eigum við eftir að ræða hér almennt en full ástæða er til að árétta það sem hér kom fram, að þessari tilskipun verði fylgt eftir hvað umhverfistjón varðar.