Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:49:07 (3846)

2002-01-31 14:49:07# 127. lþ. 67.3 fundur 321. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál., Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Í tilefni af því sem fram hefur komið hér við umræður um málið og tengsl þess við mengunarbótalöggjöf vil ég að það komi fram sem raunar er getið í nál. að innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar og það er ljóst að umhvrn. hyggst leggja fram lagafrv. sem snertir beinlínis efnisinnihald þessarar tilskipunar. Ég hygg að það sé einnig rétt að það er unnið að mengunarbótalöggjöf á sviði Stjórnarráðsins. Það er hins vegar afar viðamikið verkefni og ekki er við því að búast að þessi mál, þ.e. löggjöf sem þessi tilskipun kallar sérstaklega á og svo mengunarbótalöggjöfin sem slík, geti haldist í hendur. Mér fannst í raun og veru gefið í skyn af hálfu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að þessi mál verði að haldast í hendur. Ég held að það sé borin von að það gerist. Hitt er svo annað mál að ég hygg að á vegum Stjórnarráðsins sé unnið að undirbúningi slíkrar mengunarbótalöggjafar.