Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:42:23 (3906)

2002-02-04 15:42:23# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, Frsm. minni hluta SJóh
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Frsm. minni hluta menntmn. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Undir álit minni hluta nefndarinnar skrifa að þessu sinni aðeins tveir nefndarmenn, Sigríður Jóhannesdóttir, sú sem hér stendur, og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Hv. þm. sem áður hafði skrifað undir þetta álit með okkur hafði hlaupið á fjöll svo þeir gátu náð sér í aukinn meiri hluta í nefndinni með því að kveðja til liðs við sig nýjan mann sem bættist við meiri hluta nefndarinnar í þetta sinn.

Hér er um að ræða mál sem Alþingi hafnaði í atkvæðagreiðslu fyrir einu og hálfu ári síðan. Málið var fellt í atkvæðagreiðslu sem löglega hafði verið boðað til. Það var síðan lagt fram á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Það er mat minni hlutans að ekkert nýtt hafi komi fram í málinu sem réttlæti að það skuli borið undir atkvæði Alþingis að nýju. Að vísu hefur minni hlutinn ný rök í málinu, samþykkt fastanefndar evrópskra lækna, sem fylgir hér með í fylgiskjali. En meiri hlutinn afgreiddi málið út úr nefndinni án þess að sú samþykkt fengi nokkra efnislega umfjöllun.

Minni hlutinn fjallar nú um málið í þriðja sinn og kemst enn að sömu niðurstöðu, þ.e. að halda eigi fast við núgildandi bann við hnefaleikum. Þær ástæður sem minni hlutinn taldi og telur enn vega þyngst eru rökstuddar vísbendingar um að alvarlegt heilsutjón geti hlotist af iðkun hnefaleika, jafnt áhugamanna sem atvinnumanna og vísbendingar um að skaðinn, sérstaklega tengdur höfuðáverkum sem hlýst af iðkun þessara tveggja tegunda hnefaleika, sé fyllilega sambærilegur eða jafnvel alveg sá sami. Að sögn sérfræðinga sem komu á fund heilbrn. við fyrri umfjöllun um málið eru sterkar vísbendingar um að svo sé.

[15:45]

Er þar um að ræða alvarlega höfuðáverka, skaða á æðum sem geta rifnað, skaða vegna rifinna festinga, skaða sem hlýst af blæðingum, jafnt fyrir innan heila sem utan, heilaskaða af völdum uppsafnaðra áhrifa höfuðhögga, taugaskaða, hreyfiskaða, augnskaða og vitrænan skaða. Þá eru einnig vísbendingar um tengsl hnefaleikaiðkunar og Alzheimer-sjúkdómsins. Rannsóknir á augnskaða hafa einnig gefið tilefni til að ætla að höfuðhlífar í hnefaleikum áhugamanna veiti falskt öryggi og augnskaðar sem hljótist í áhugamannahnefaleikum séu þeir sömu og í atvinnumannahnefaleikum. Vegna skorts á langtímarannsóknum á meiðslum sem hljótast í hnefaleikum leikur á því vafi að um sömu áverka og áhrif sé að ræða og þess vegna spyr minni hlutinn: Hver á að njóta vafans?

Það vegur líka þungt í afstöðu minni hlutans gegn lögleiðingu hnefaleika að hér er um árásaríþrótt að ræða. Markmið íþróttarinnar er að meiða andstæðinginn og því ofar sem höggin falla á líkamann því hærri stig gefur hvert högg, rothögg gefur einnig stig í áhugamannahnefaleikum. Þannig má segja að meiðsl sem hljótast af iðkun hnefaleika séu ásetningur en ekki slys. Þar skilur á milli meiðsla sem hljótast af hnefaleikaiðkun og meiðsla sem hljótast af iðkun annarra íþrótta. Við umfjöllun nefndarinnar um málið á síðasta þingi kom fram að þegar leitað er á netinu að upplýsingum um skaðsemi áhugamannahnefaleika finnst nokkur fjöldi greina. Af tíu greinum sem Grétar Guðmundsson læknir, sem kom á fund heilbrigðisnefndar, fann á netinu var í sex þeirra komist að þeirri niðurstöðu að um skaðlega íþrótt væri að ræða en í fjórum var hinu gagnstæða haldið fram. Af þessum fjórum voru tvær eftir sama höfund.

Varðandi þau rök að í áhugamannahnefaleikum gildi reglur sem draga úr skaðsemi íþróttarinnar telur minni hlutinn frumvarpið sem hér er til umræðu ekki leggja neitt til málanna sem tryggt geti að reglur íþróttarinnar séu haldnar við iðkun og æfingar. Það er vitað að tæki til iðkunar hnefaleika eru notuð á Íslandi og nokkur hópur manna stundar greinina þrátt fyrir gildandi bann.

Minni hlutinn telur að verði slakað á í þessu sambandi og áhugamannahnefaleikar lögleiddir megi gera ráð fyrir að brautin fyrir atvinnumannahnefaleika sé rudd og krafist verði lögleiðingar á þeim innan fárra ára. Að mati minni hlutans væri það stórslys.

Minni hlutanum hefur borist samþykkt fastanefndar evrópskra lækna sem gerð var samhljóða 22. september 2001 og er hún birt sem fylgiskjal II með nefndaráliti þessu. Þar kemur fram að ráðið styður ályktanir alþjóðasamtaka lækna um að hnefaleikar af öllu tagi verði bannaðir en þangað til slíkt bann kemst á verði reglum í hnefaleikum breytt þannig að höfuðhögg verði bönnuð og er skorað á Alþjóðaólympíunefndina og alþjóðahnefaleikasamböndin að banna höfuðhögg bæði í hnefaleikum atvinnumanna og áhugamanna.

Í umfjöllun um málið í nefndinni á síðasta þingi kom fram að Norðmenn hafa nú til skoðunar möguleikann á að banna allar íþróttir sem leyfa högg í höfuðið, þ.m.t. áhugamannahnefaleika og þær bardagaíþróttir sem þróast hafa úr austurlenskum sjálfsvarnaríþróttum eins og taekwondo.

Minni hlutinn lýsir sig að öðru leyti fullkomlega sammála áliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis sem sent var menntamálanefnd á síðasta þingi og er birt sem fylgiskjal I með nefndaráliti þessu. Minni hlutinn vekur athygli á að einungis einn af níu þáverandi nefndarmönnum heilbrigðis- og trygginganefndar telur að lögleiða eigi áhugamannahnefaleika.

Undir nál. skrifa eins og áður var sagt tveir nefndarmenn, Sigríður Jóhannesdóttir sem hér stendur og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir.

Varðandi það sem fram kom í orðaskiptum við frsm. meiri hluta nefndarinnar um að það eigi algerlega að vera á valdi hvers einstaklings að velja hvaða íþróttir hann stundar, þá er það vissulega sjónarmið, en þá kemur það ekki í veg fyrir að stundaðar verði íþróttir sem hér er verið að leggja til að verði bannaðar eins og atvinnumannahnefaleikar, ef það er einungis á áhugasviði einhverra sem vilja stunda íþróttina. Mér finnst það því ekki vera gild rök í málinu nema við séum þá að leggja til að hnefaleikar séu leyfðir almennt.

Varðandi þá skoðanakönnun sem hér var vitnað í um að 60% þjóðarinnar hefðu sagst vera fylgjandi hnefaleikum, þá vil ég draga þá túlkun mjög í efa. Ég fékk þá skoðanakönnun og það er gríðarlegur fjöldi, hátt í helmingur þeirra sem voru spurðir, sem vill ekki gefa svör. Það voru því 60% þeirra sem svöruðu í umræddri skoðanakönnun sem keypt var inn hjá PriceWaterhouse Coopers en ekki var hægt að fá upplýsingar um hverjir hefðu keypt hana inn. Áður hafa verið gerðar skoðanakannanir sem gefa til kynna önnur hlutföll meðal þjóðarinnar varðandi skoðun á þessu máli.

Til þess að greiða fyrir málinu og hæstv. forseti þurfi ekki að vaka fram á rauða nótt, a.m.k. ekki út af þessu máli, þá ætla ég ekki að hafa orð mín fleiri.