Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:51:50 (3907)

2002-02-04 15:51:50# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur sem mælir fyrir áliti minni hlutans hvort ekki séu til neinar samanburðarrannsóknir á meiðslum og slysum í íþróttum. Hér er sagt í álitinu: ,,Vegna skorts á langtímarannsóknum á meiðslum sem hljótast í hnefaleikum leikur á því vafi að um sömu áverka og áhrif sé að ræða og þess vegna spyr minni hlutinn: Hver á að njóta vafans?``

Hnefaleikaíþróttin er mjög gömul íþrótt, sennilega með eldri íþróttagreinum sem hafa verið iðkaðar reglulega og mér kemur á óvart að ekki skuli vera til neinar rannsóknir sem hægt er að styðjast við. Við sjáum í öðrum íþróttum að alls konar slys eru þar á ferðinni. Við sáum í Evrópukeppninni í handbolta að menn voru að fá boltann í brjóstið eða í ennið eða hvar það var. Boltanum er kastað það fast að menn liggja í gólfinu á eftir í lengri eða skemmri tíma. Það er því ekkert nýtt að íþróttir stuðli að einhverjum meiðslum eða að íþróttamenn geti lent í því að liggja í gólfinu eftir að hafa fengið í sig bolta eða fengið á sig högg frá andstæðingum þótt það sé ekki viljaverk. Ef ekki eru til neinar rannsóknir sem hægt er að styðjast við í þessu tilliti til að segja sem svo: hnefaleikar eru hættulegasta íþróttagreinin sem leyfð er í heiminum, þá finnst mér í rauninni rökin fyrir því að vera á móti þessu eða hafa uppi mikil orð gegn þessari íþrótt, sem er stunduð alls staðar í heiminum nema á Íslandi, falla um sjálf sig ef þau verða ekki meiri og sterkari en þetta.