Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:59:42 (3911)

2002-02-04 15:59:42# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KF
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Enn á ný ræðum við um áhugamannahnefaleika, ólympíska hnefaleika. Ég hef þegar í ítarlegu máli á fyrri stigum gert grein fyrir skoðunum mínum á því máli og vísa til þess. Það eru ræður fluttar 12. maí árið 2000, 12. febrúar árið 2001 og 18. október árið 2001. Ég hef ekki hugsað mér að endurtaka þær ræður hér en mig langar að undirstrika nokkur atriði.

[16:00]

Frv. það sem við ræðum um, um að lögleiða ólympíska hnefaleika, og brtt. meiri hluta menntmn. gera ráð fyrir því að heimiluð verði þjálfun, sýning og keppni í áhugamannahnefaleikum. Forsendur flestra flutningsmanna frv. eru þær að fólk eigi sjálft að geta valið í hvaða íþróttum það tekur þátt, annað sé forsjárhyggja. Það er ekki hægt að segja að það sé forsjárhyggja að banna áhugamannabox en það sé ekki forsjárhyggja að banna atvinnumannabox. Slík röksemdafærsla stenst ekki.

Það er göfugt markmið í sjálfu sér að fólk geti valið sér sínar eigin íþróttagreinar en það stenst ekki rökfræðilega ef áfram á að vera bannað að þjálfa og keppa í atvinnumannahnefaleikum eða svokölluðu ,,alvöruboxi``. Flutningsmenn hafa fullyrt að ekki standi til að breyta lögunum hvað varðar atvinnumannahnefaleika. Þó er það vitað um allan heim að stór hluti þeirra sem stunda box hefur feril sinn sem áhugamenn en vendir svo sínu kvæði í kross og fer yfir í atvinnumennsku í boxi.

Því hefur ekki verið á móti mælt að það að þjálfa box í íþróttasal sé holl hreyfing, loftsækin eða eróbísk líkamsþjálfun, og hættulaus. Við slíkar æfingar er kýlt í púða en ekki í annað fólk og því ástæðulaust annað en að slíkt sé heimilt. Núverandi lög hafa verið túlkuð þannig að búnaðurinn sé óheimill og að mínu mati er sjálfsagt að breyta því.

Fólk hefur þó verið blekkt með yfirlýsingum um að áhugamannahnefaleikar séu ekki hættuleg íþrótt, ekki hættulegri en handbolti, fótbolti, karate eða júdó. Munurinn er þó sá að áverkarnir í hnefaleikum eru hluti af leiknum og ekki refsiverðir. Áverkahætta í hnefaleikum er staðreynd í keppnum og í svokölluðu ,,sparring`` en það er þjálfun þar sem maður keppir við mann inni í íþróttasal. Þess vegna hef ég mælt með því að keppni verði ekki leyfð hérlendis.

Áverkar á höfuð geta valdið heilaskaða eins og dæmin sanna, og þeir eru gjarnan óafturkræfir. Í ljósi þess hafa alþjóðasamtök lækna og fjölmörg læknafélög víða um heim, þar á meðal Læknafélag Íslands, tekið afstöðu gegn hnefaleikum og haustið 2001 ályktaði CP eða fastanefnd evrópskra lækna á þann veg að hvetja til þess að hætt yrði að keppa í áhugamannahnefaleikum á Ólympíuleikum. Þar til því takmarki verður náð vilja evrópskir læknar að bannað verði að slá í höfuð í slíkum keppnum.

Ástæðan fyrir því að svo margir hafa sett sig upp á móti hnefaleikum er sú að hætta á höfuðhöggum er mikil enda er leyfilegt að kýla í höfuð, bæði í áhugamanna- og atvinnumannahnefaleikum. Afleiðingarnar eru fólgnar í skemmdum á miðtaugakerfi og augnáverkum, og þekkt er fyrirbæri sem nefnt hefur verið ,,dementia pugilistica`` en það eru minnistruflanir og merki um varanlegan heilaskaða hjá boxurum. Einnig er talið að Alzheimer-sjúkdómur og Parkinson-sjúkdómur séu algengari hjá þeim sem orðið hafa fyrir slíkum áverkum. Hinn frægi Múhameð Alí er talinn vera gott dæmi um það.

En hvað kemur málið læknum við? Jú, í reglunum segir að það sé ekki heimilt að keppa í áhugamannahnefaleikum --- ekki einu sinni í áhugamannahnefaleikum --- nema að viðstöddum lækni, og að mínu mati og margra lækna veitir það falskt öryggi. Það kemur líka til kasta lækna ef keppandi verður fyrir áverka. Margoft hefur verið bent á að mikill munur sé á þeim áverkum sem veittir eru vísvitandi, eins og í hnefaleikum, og þeim sem flokkast undir slys og eru ekki innbyggðir í keppnisreglur íþrótta. Sé bannað að slá í höfuð á sama hátt og bannað er að slá fyrir neðan beltisstað, ég tala nú ekki um séu viðurlög við því að slá í höfuð, mundi áverkahættan minnka verulega. Þó er reyndar talið að högg á brjóstkassa geti valdið hjartatruflunum, jafnvel hjartastoppi, og hef ég fengið nýlega grein þess efnis.

Hv. þm. Kristján Pálsson gerði að umræðuefni áðan í andsvari við hv. fyrri ræðumann, Sigríði Jóhannesdóttur, að slys væru algeng í öllum íþróttum og hann vitnaði m.a. til handboltaleikja sem við höfum verið að fylgjast með um helgina. Sama gerði frsm. meiri hluta menntmn., talaði líka um þá áverka sem þar hefðu af hlotist. En menn gleyma alltaf að skoða samhengi hlutanna þegar þetta er rætt. Sem dæmi má nefna að 1.207 tilvik eru skráð vegna hnefaleika í bandarískri slysaskráningarskýrslu frá 1998, National Electronic Injury Surveillance System. Jafnframt er sagt að 3.254 klappstýrur hafi slasast. Telja menn þá að það sé margfalt hættulegra að vera klappstýra á íþróttaleik heldur en að vera í hnefaleikum?

Auðvitað geta menn ekki nýtt tölur svona, það verður að taka svo margt annað inn í dæmið. Og það hefur m.a. breska læknafélagið gert, félag sem telur hnefaleika eina hættulegustu íþrótt sem menn geta stundað --- reyndar er ekki rétt hjá mér að orða það þannig því að breska læknafélagið leggur sig í líma við að kalla box ekki íþrótt heldur iðkun eða eitthvað slíkt. Svo langt gengur það góða félag í þessu máli. Í grein sem birtist í Health Telegraph í Bretlandi í maí 2001 segir boxarinn frægi, George Foreman --- sem virðist vera einn af þeim boxurum sem slapp óskaddaður frá boxferli sínum --- að flestir boxarar fari milli þrítugs og fertugs að sýna einkenni um að hafa skaddast. Toppmaður í boxinu segir þetta, að milli þrítugs og fertugs fari flestir boxarar að sýna einkenni um að hafa skaddast. Þeir hafi verið slegnir og barðir svo mjög að þeir verði skyndilega gamlir fyrir aldur fram. Reyndar segir George Foreman um syni sína fimm að hann hafi skýrt þá alla George til vonar og vara ef hann skyldi missa minnið en til allrar hamingju lenti hann ekki í því. Og ein dætranna fimm heitir Georgie og önnur hefur George að nafni númer tvö.

Herra forseti. Ég held því fram að við séum lánsöm hér á landi, að hafa ekki þurft að horfa upp á alvarlega áverka af völdum hnefaleika, og ég vil hvetja til þess að svo megi verða áfram. Þó er harkan farin að færast í vöxt í þjóðfélagi okkar og sjáum við mörg merki þess. Ég tel eðlilegt að heimila búnað til að þjálfa í íþróttasal vegna þess að engin dæmi eru um að menn hafi hlotið höfuðáverka eða heilaskemmdir af því. Þess vegna hef ég samið brtt. þar að lútandi sem dreift hefur verið í salnum.

Rétt er að minna á að í mörgum löndum eru menn að endurskoða afstöðu til reglna um hnefaleika. Áðan var minnst á Noreg. Í Belgíu er á sama hátt verið að fara ofan í málin. Í Ástralíu hefur heilbrigðisráðherrann lýst því yfir að banna ætti hnefaleika. Reyndar er sá heilbrigðisráðherra læknir svo hann veit líklega hvað hann er að tala um. Við dauðsföll sem koma upp, eins og gerst hefur í Bretlandi við alvarlega áverka, fer þessi umræða af stað. Ég tel mjög líklegt að Alþjóðaólympíunefndin muni áður en langt um líður bregðast við áskorunum og ábendingum lækna hvað þetta varðar þannig að box verði ekki lengur ólympíuíþrótt. Kannski er þetta óskhyggja hjá mér en ég trúi því að þessir aðilar fari ofan í málin með læknum og álykti út frá því.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu langar mig að segja að mér finnst mjög óviðeigandi að Íþróttasamband Íslands skuli hafa veitt fjárstuðning til boxíþróttarinnar á Íslandi í trássi við lög. Mér finnst alvarlegt að blása á lög sem í gildi eru í landinu og segja þar með við ungt fólk og unglinga á Íslandi að það sé allt í lagi að landslög séu ekki virt. Mér finnst þetta ekki boðlegt, herra forseti.

Á þessu ári hefur Alþingi veitt um 85 millj. kr. til íþróttahreyfingarinnar. Hún er áreiðanlega ekki ofsæl af því og ég sé ekki eftir þeim fjármunum en mér finnst að við eigum að ætlast til þess að íþróttahreyfingin fari að lögum og styðji ekki ólöglega starfsemi í landinu, burt séð frá því hver framtíðin verður. Við eigum eftir að sjá hvort þetta frv. verður samþykkt. Fari svo getur íþróttahreyfingin tekið til meðferðar mál af þessu tagi. En það er algjörlega ólíðandi, herra forseti, að íþróttahreyfingin á Íslandi skuli ganga fram fyrir skjöldu til að styðja ólöglega starfsemi í landinu og brjóta lög.