Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:23:06 (3920)

2002-02-04 16:23:06# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Enn koma hinir ólympísku hnefaleikar hér til umræðu. Vonandi er að niðurstaða fáist í þetta mál og það verði afgreitt frá þinginu.

Fyrir u.þ.b. hundrað eða tvö hundruð árum voru skylmingar mjög vinsæl íþrótt á meginlandi Evrópu meðal hins evrópska aðals. Reglulega voru sett upp mót, formleg og óformleg mót í skylmingum. Stundum voru áhorfendur fáir en í öðrum tilvikum fylgdist gífurlegur fjöldi áhorfenda með þeirri íþrótt sem þá var vinsæl meðal aðalsins í Evrópu, skylmingum. En þá voru skylmingar dálítið öðruvísi en við þekkjum þær í dag hérlendis og víðast erlendis. Þá voru skylmingar stundaðar upp á líf eða dauða. Gjarnan endaði kappleikurinn, ef svo má að orði kveða, með því að annar lá sár eða jafnvel dauður eftir. Það voru skylmingar þess tíma, vinsælar meðal aðalsmanna í Evrópu.

En tímarnir breytast og mennirnir með. Enn er verið að skylmast, bæði á meginlandi Evrópu og einnig hérlendis. Munurinn er bara sá að menn eru ekki að skylmast í dag upp á líf eða dauða, m.a. vegna þess að gildismat hefur breyst. Menn skylmast engu að síður. Nú skylmast menn undir mjög ströngum reglum sem m.a. Alþjóðaólympíusambandið setur. Menn skylmast undir ströngu eftirliti, nákvæmum reglum sem m.a. ganga út á það að keppendur veiti ekki hverjir öðrum skaða hvað þá bana.

Grundvallaratriði í þeim skylmingum sem við þekkjum í dag er agi, sjálfsagi, einbeiting og anda hinnar ólympísku hugsjónar hafa menn þar að leiðarljósi. Það er rétt, herra forseti, að vekja athygli á því að þessar skylmingar sem ég er að lýsa eru leyfðar á Íslandi í dag, enda fara þær eftir hinum ströngu reglum og þeim anda sem ólympíuhugsjónin byggir á.

Herra forseti. Þetta dreg ég fram vegna þess að hvarflað hefur að mér að ef ekki væri búið að leyfa skylmingar hér og við værum að fjalla um það á virðulegu Alþingi hvort leyfa ætti skylmingar að í röksemdum gegn því að leyfa þessa merku íþrótt drægju menn fram þau rök sem giltu um íþróttina þegar hún var stunduð á öldum áður í Evrópu þegar menn skylmdust upp á líf eða dauða. Ég nefni það vegna þess að mér finnst stundum að þeir sem leggjast hvað harðast gegn því í umræðunni að leyfa hér ólympíska hnefaleika séu að bera saman óskylda hluti og séu ekki að fjalla um ólympíska hnefaleika heldur um þungavigtarhnefaleika, enda eru menn á borð við George Foreman, Cassius Clay eða Múhameð Alí og slíkar hetjur úr þungavigtarboxinu gjarnan dregnar inn í umræðuna þó að þeir eigi í rauninni ekkert skylt við ólympíska hnefaleika. Þess vegna dreg ég fram þessa líkingu með skylmingar fyrr og nú. Mér finnst, herra forseti, eins og verið sé að bera saman nokkuð ólíka hluti, að verið sé bera saman epli og appelsínur.

Reginmunur er á því hvort verið er að keppa í þungavigtarboxi, eins og við sjáum og heyrum þá félaga Bubba Morthens og Ómar Ragnarsson lýsa mjög fjálglega þegar hinir miklu bardagamenn í þungavigt eru að berjast, eða í ólympískum hnefaleikum. Það er tvennt ólíkt. (Gripið fram í: Heilaskemmdir ...) Verið er að ræða um ólympíska hnefaleika þar sem farið er að lögum og reglum sem m.a. Alþjóðaólympíusamtökin setja. Það er verið að ræða um keppnisgrein sem byggir á hinum ólympíska anda.

Vissulega verður einhver skaði í óplympískum hnefaleikum. Skaðinn verður margfalt meiri í þungavigtarhnefaleikum. Skaði verður í öllum íþróttagreinum, bara eins og í lífinu sjálfu. Hér hafa verið rakin dæmi. Menn hafa skaðast illilega af því að stunda þá hollu íþrótt og skemmtilegu sem er hestamennska. Ég þekki einstaklinga sem hafa komið illa skaddaðir úr hörðum körfuboltaleik, brotnir í andliti og með áverka á höfði. Við þurftum nú ekki annað en að fylgjast með hetjum okkar frá síðustu viku, íslenska landsliðinu í handknattleik. Ég man ekki betur en að sá ágæti hornamaður Gústaf Bjarnason hafi verið saumaður á höfði eftir hörð átök í hörðum landsleik í beinni útsendingu. En hann spilaði áfram.

Ég man líka eftir því þegar fyrsta landslið í handbolta kom hingað frá Hollandi, fyrsta hollenska landsliðið í handbolta kom til þess að keppa í handbolta við íslenska landsliðið fyrir svona 20--25 árum. Man ég þá eftir því að hollenski markmaðurinn var með grímu fyrir andliti. Hvers vegna? Vegna þess að það er hlutverk markmanns í handbolta að fara í veg fyrir tuðruna til þess að ekki verði mark. Og sá sem ekki er nógu snöggur að koma sér fyrir tuðruna telst lélegur markmaður. En oft og tíðum fá þeim nú bylmingsskot eins og Bjarni Fel. segir svo réttilega. Hvað hafa menn ekki oft séð landsliðsmarkmann eða markmann í félagsliði fórna sér í hraðaupphlaupi og fá boltann beint framan í sig? Það er bylmingshögg og kann að valda miklum skaða. En við leyfum það eigi að síður.

Þannig má taka fleiri íþróttagreinar sem dæmi og nefna dramatísk dæmi um höfuðáverka, áverka á líkama, ég segi nú ekki sál, í hinum einstöku íþróttagreinum. Því fylgir ákveðin áhætta að keppa í íþróttum. Íþróttir ganga stundum út á keppni, þó ekki í öllum tilvikum. En við erum hér að ræða um ólympíska hnefaleika og rétt er að draga það fram, ég árétta það, að blanda ekki saman ólympískum hnefaleikum við þungavigt. Það finnst mér vera grundvallaratriði.

[16:30]

Alþjóðaólympíusambandið byggir á hinni fallegu hugsjón Ólympíuleikanna, ólympíueldsins, og þar eru settar strangar leikreglur og strangar siðareglur og það er strangt eftirlit. Við þekkjum það að Alþjóðaólympíusambandið og fulltrúar þess í einstökum löndum setur upp sitt eftirlitskerfi og hefur vísað leikmönnum úr keppni, sett þá í keppnisbann vegna þess að þeir hafa brotið þær reglur sem Alþjóðaólympíusambandið setur. Grundvallarhugsjón Ólympíusambandsins og táknið sem ólympíueldurinn er tákn fyrir er einmitt sjálfsagi, þ.e. að fylgja leikreglum, ástunda sjálfsaga og aga. Til þess eru settar ákveðnar reglur og ákveðið kerfi til að fylgja slíkum reglum eftir.

Tínd hafa verið til mikil rök gegn því að leyfa ólympíska hnefaleika hér. Einnig hafa verið dregin fram rök sem mæla með þeim. Ég fæ, herra forseti, ekki séð að þau rök dugi til þess að sannfæra mig um að rétt sé að Ísland, eitt landa, skuli banna ólympíugreinina ólympíska hnefaleika. Ég hef ekki séð þau rök og ekki séð að á Íslandi séu þær aðstæður sem kalli á þetta sérkennilega bann, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Þá finnst mér líka rétt að draga fram, og ég hygg að allir --- líka þeir sem eru andstæðingar ólympískra hnefaleika --- geti verið sammála um að gildi íþrótta fyrir samfélagið í heild sinni er afskaplega mikilvægt. Það er hvergi nokkurs staðar eða á fáum stöðum sem jafnmikið forvarnastarf á sér stað eins og innan íþróttahreyfingarinnar. Þannig verða sumar íþróttagreinar vinsælli en aðrar og get ég nefnt bara sem dæmi þann eldlega áhuga sem hefur kviknað núna í kjölfar Evrópumótsins í handknattleik meðal ungs fólks sem flykkist nú inn á æfingar hjá handboltafélögum til að líkja eftir hetjum sínum. Við þekkjum það að körfuknattleikur og knattspyrna eru afskaplega vinsælar íþróttagreinar og höfða til mjög margra, stuðla að heilbrigðara líferni, stuðla að sjálfsaga og þar af leiðandi aga í samfélaginu öllu.

En hins vegar er mjög mikilvægt að hafa það líka í huga að þessar vinsælustu íþróttagreinar höfða ekki til allra. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að fjölbreytileikinn í íþróttum sé mikill. Komið hefur fram m.a. í bréfi sem ég hygg að flestir hv. þm. hafi fengið sent frá móður sonar sem tók að æfa ólympíska hnefaleika. Ég þekki sjálfur ýmsa unga menn og konur sem hafa stundað slíkar æfingar. Ég vil aðeins leyfa mér að vitna í það sem hin ágæta móðir segir í bréfi sínu og lýsir á mjög einlægan hátt hvaða áhrif æfingar í ólympískum hnefaleikum og sá félagsskapur sem þeim fylgir hafði á son hennar. Hann hafði átt í ýmsum, við skulum segja félagslegum vandamálum, hafði ekki fundið sig í lífinu, var óagaður, vandamál voru í skóla og á heimili og þannig má áfram telja. En eftir að þessi ungi maður hóf að æfa með félögum sem hafa haft frumkvæði og kraft til þess að koma upp slíkri aðstöðu þá hefur líf þessa unga manns gjörbreyst vegna þess að hann er kominn í agað umhverfi, honum er gert að æfa eftir ströngum reglum, afskaplega ströngum reglum, bæði siðareglum og leikreglum. Hann hefur komist í nokkuð agað umhverfi sem hann finnur sig vel í og hefur agað sig sem einstakling. Í framhaldinu hefur hann átt mun auðveldara með að aðlaga sig að umhverfinu í kringum sig, samfélaginu öllu, ekki síst heimilinu, og þar fram eftir götunum.

Ég þekki fleiri slík dæmi og mér finnst þau vera mikils virði og er að draga þetta fram, herra forseti, til þess að leggja áherslu á gildi íþrótta og fjölbreytileika íþrótta. Ég vil líka benda á, herra forseti, að skynsamlegra er að hafa leikinn uppi á yfirborðinu, ekki feluleik. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar verið er að halda uppi óskynsamlegu banni, vitandi það hins vegar að ýmislegt gerist þá í --- eigum við að segja skúmaskotum. Ætli sé ekki skynsamlegra í alla staði að hafa málin opin?

Ég læt þetta nægja, herra forseti. Ég mun styðja frv. og vonast til þess að það verði samþykkt hér á þingi með þeim rökum sem ég hef reynt að draga fram og vísa ég þar fyrst og fremst til þeirra hugsjóna sem fylgja Ólympíusambandinu, Alþjóðaólympíusambandinu, þeim hugsjónum, þeim sjálfsaga og þeim siðareglum sem þar fylgja, og ítreka, herra forseti, að ég hef ekki heyrt eða séð þau rök sem réttlæta það að við, eitt ríkja í heiminum, skulum ekki geta tekið þátt í ólympískum hnefaleikum á því stórmóti sem Ólympíuleikarnir eru.