Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:38:13 (3922)

2002-02-04 16:38:13# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég verð aðeins að leiðrétta hv. þm. Ég minntist ekki einu orði á hvorki meirihluta- né minnihlutaálit hv. menntmn. Ég fjallaði bara um málið almennt eins og það kæmi mér fyrir sjónir hér í umræðu nú og áður og eins í blöðum.

Ég árétta það sem ég sagði í minni stuttu ræðu að mér finnst það oft gerast hér í umræðunni að menn tali um hnefaleika, ólympíska hnefaleika, eins og aðra hnefaleika. Það gerist gjarnan þegar verið er að ræða um hugsanlega hættu. Þá eru oft tekin dæmi og nefnd nöfn eins og Múhameð Alí, eins og gerst hefur hér í dag, sem er farinn að heilsu, það nafn heyrist gjarnan. George Foreman var nefndur líka en Múhameð Alí er gjarnan nefndur í tengslum við hugsanlega skaða af ólympískum hnefaleikum. Það hefur heyrst hér í ræðustól á Alþingi, og það er það sem ég er að draga fram að menn eiga ekki að bera það saman, þetta eru ólíkar greinar.

Ég held því fram og hvað sem hv. þm. hefur heyrt um slysahættur þá má líka vísa til skýrslna sem hér hafa verið nefndar í umræðunni þar sem borin er saman slysatíðni og reynslan af hinum einstöku íþróttagreinum og þá kemur einfaldlega í ljós að ólympískir hnefaleikar eru þar langt í frá að vera í hæsta sæti, langt í frá. Það eru ýmsar viðurkenndar íþróttagreinar sem fela í sér miklu meiri slysahættu en ólympískir hnefaleikar.

Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm, þá ættum við að spyrja: Viljum við banna þær greinar líka? Undir það hygg ég að fáir geti tekið.