Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:23:21 (3947)

2002-02-04 18:23:21# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að ég vil gjarnan gæta almannahagsmuna og þar á meðal hagsmuna launafólks. Það er rétt.

En mig langar til að beina spurningu til hv. þm., sem er einn af flm. þessa frv.: Láta flm. fyrst og fremst stjórnast af kennisetningum um að verslun og viðskipti eigi ekki að vera á hendi opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, og þess vegna beri að flytja áfengissöluna til einkaaðila? Er það þess vegna? Eða telur hann að þessi flutningur muni verða til þess að verð á áfengi muni lækka? Telur hann að fjölbreytni muni aukast? Ég vil biðja hann að gera okkur grein fyrir því á hvern hátt hann telur að þetta muni gagnast neytendum eins vel og hann gumar af.