Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:48:27 (3960)

2002-02-04 18:48:27# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með umræðunni hér í dag og um daginn þegar þetta mál kom fyrst til þessarar umræðu, og hún hefur verið fróðleg. Auðvitað er þetta ekki einfalt mál frekar en önnur áfengis- eða vímumál eða þau mál sem varða frelsi og höft í samfélagi okkar.

Mér hefur þótt afar fróðlegt að heyra ræður þeirra þriggja hv. framsögumanna sem nú hafa talað, og afstöðu þeirra til málsins sem mér sýnist ekki að öllu leyti vera söm. Þannig tala hv. þm. Pétur Blöndal og Vilhjálmur Egilsson, sem eru framsögumenn þessa máls, með því orðfæri að hér sé á ferð vara. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson kallaði --- ég held að ég fari rétt með --- í ræðu sinni áfengi aldrei áfengi heldur alltaf vöruna með greini, varan, um vöruna. Sú afstaða kemur einmitt fram í greinargerðinni, a.m.k. er í sumum köflum hennar talað um að áfengi verði selt í sérverslunum eða í blönduðum verslunum ásamt öðrum vörum, t.d. matvörum, og annars staðar er talað um vöruna og ,,varan``, þ.e. litið er á vöruna eins og hverja aðra vöru. Áfengi er sem sé samkvæmt þessu orðfæri og samkvæmt ræðum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og hv. þm. Péturs Blöndals einungis sett hér fram sem hver önnur verslunarvara. Aðrir töluðu ekki alveg í þessum dúr. Hv. þm. Ásta Möller reyndi t.d. í ræðu sinni að verja það að áfengi væri sett af tilteknum ástæðum, með tilteknum rökum, innan um aðrar vörur.

Ég held að það væri snjallt að hv. flutningsmenn kæmu sér saman um afstöðu sína til áfengis að þessu leyti, og til fíkniefna almennt, hvort þau séu að þeirra áliti eins og hverjar aðrar vörur sem eiga að ganga nokkurn veginn óheft kaupum og sölum í samfélaginu.

Það er auðvelt að taka undir allflest rök hv. flutningsmanna í þá átt að eyða höftum áfengiskaupa, að færa áfengisverslunina út til einkaaðila og það annað sem þeir hafa lagt til eða gefið í skyn í ræðum sínum, ef áfengi er tekið eins og hver önnur vara. Þess vegna þarf það að vera alveg skýrt, sérstaklega hjá hv. þm. Ástu Möller þar sem ekki hefur verið alveg skýrt hvort áfengi sé eins og hver önnur vara. Það hefur verið það hjá hv. þm. Pétri Blöndal og Vilhjálmi Egilssyni, og hjá stuðningsmanninum hv. þm. Katrínu Fjeldsted hvernig hún lítur á málið. Fróðlegt er að vita hvað þeim heilbrigðiskonum finnst um þetta vegna þess ósköp einfaldlega að erfitt er að ræða þessi mál án þess að taka tillit til þess að áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Að því leyti er frv. nefnilega blanda, eins konar bræðingur, því fram kemur í frv. að hv. flutningsmenn vilja ekki að afnumin verði eða lækkuð aldurstakmörk til kaupa á þessari vöru sem á að vera ásamt öðrum vörum í t.d. matvöruverslunum. Það kemur líka fram að þótt verðlagning --- a.m.k. í ræðu hv. þm. Ástu Möller ef ég man rétt --- að ekki átti að rýmka um auglýsingar á þessari vöru sem þó á, samkvæmt því sem hv. flm. Vilhjálmur Egilsson sagði í sjónvarpinu í gær, meira að segja að vera til sölu á bensínstöðvum og vera þannig innan handar hvenær sem er og nánast hvar sem er, þess vegna allan sólarhringinn. Það á að fela sem sé nánast hverri einustu opinni búð að vera með hana.

Þetta þarf að skýrast og það er galli á greinargerðinni sem hér er sett fram að það skuli ekki vera skýrt, að áfengisstefna hv. flutningsmanna sé ekki skýr og virðist ekki vera sú sama vegna þess að það er grundvallarmál í þessu efni. Ég hygg að ástæðan sé sú að hv. þingmenn sem taldir eru hér á eftir 1. flm. hafi séð færi á að láta á sér bera í máli sem þeir telja að hafi einhvern byr. Tilgangur 1. flm. er fullkomlega ljós og var augljós í framsöguræðu hans, þ.e. meintir eða raunverulegir hagsmunir verslunarinnar í landinu.

Nú er verslunin í landinu prýðilegt fyrirbrigði og kaupmenn hinir bestu menn. En hagsmunir verslunarinnar fara þó ekki endilega saman við hagsmuni þjóðarinnar. Þess vegna eru þeim hagsmunum sett ýmis bönd og höft. Eitt þeirra hafta og banda sem sett eru, ekki aðeins hér á landi heldur alls staðar, á hagsmuni verslunarinnar er þegar um er að ræða vöruflokka sem um gegnir sérstöku máli, t.d. áfengi, lyf, skotvopn, að ekki sé rætt um önnur fíkniefni.

Eitt af því sem menn verða líka að gera sér grein fyrir í þessu er að hv. flutningsmenn hafa talið upp fjóra þætti sem varða áfengismálin. Þeir hafa talað um verðlagningu, aldurstakmark, dreifingu eða aðgangshindranir ýmsar og auglýsingar. En þetta eru ekki einangraðir þættir. Það er ekki hægt að taka einn þessara þátta út úr og hreyfa hann í nafni einhverra hagsmuna undir gunnfána einhverrar þeirrar frelsishugsjónar sem hv. flutningsmenn telja sig vera haldna án þess að hinum sé hreyft. Og það er auðvitað aðalathugasemdin sem maður hlýtur að gera við þetta frv. Sjálfri þessari dreifingu út fyrir vébönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fylgir það auðvitað að ekki er nánast stætt á því --- það er þá undarleg tilætlan hv. flutningsmanna að þeir ágætu kaupmenn sem taka við þessum vörum, einkaaðilar að sjálfsögðu, stilli sig um kynningu og auglýsingu á vörunni. Það er undarlegur kaupmaður, undarleg verslun, sem ekki kynnir vöru sína, sem ekki vill auglýsa hana, sem ekki beitir sér af krafti fyrir því að viðskiptavinurinn komi og kaupi þá vöru sem á boðstólum er.

Þess vegna hefur löggjafinn hingað til talið heppilegast að selja nákvæmlega þessa tilteknu vöru í sérstakri stofnun sem heitir ÁTVR. Svo geta menn haft ýmsar skoðanir fram og aftur á þeirri stofnun um áratugina. En þessi er ástæðan og þess vegna þurfa hv. flutningsmenn, bæði verslunarhagsmunahluti eða frjálshyggjuhluti þeirra og stjórnlyndishluti, að skýra fyrir okkur hvernig eigi að koma í veg fyrir --- hvernig hægt sé að ætlast til þess að verslunarmenn í sérbúðum auglýsi ekki búð sína opna eða þær vörur sem þar er að fá.

Ég nefndi stjórnlyndishlutann. Það vekur nefnilega sérstaka athygli við þetta frv. að það er ekki bara bastarður að því leyti sem tekur til áfengisstefnunnar heldur líka bastarður að því leyti sem tekur til dreifingar áfengis. Í frv. er gert ráð fyrir tvenns konar dreifingu, annars vegar að til séu sérverslanir með áfengi en hins vegar að áfengi fáist sem sé á hvaða stað sem er, þó þannig að áfengishillurýmið sé að hámarki 5% af heildarhillurými viðkomandi verslunar.

Hvaðan er þessi tala? Hvernig rímar þetta við aðra hluti í frv.?

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson upplýsti að hann hefði verið á gangi í Portúgal og öðrum ríkjum og séð þar að áfengi er haft til sölu í almennum verslunum. Eins og við vitum tíðkast slíkt í Suður-Evrópu sem hefur allt aðrar hefðir en við í þessu efni. En fimm prósentin, hvernig á þetta að gerast? Hver á að líta eftir þessu? Hv. flutningsmenn þurfa að skýra mjög vel fyrir okkur hvernig þetta eftirlit eigi að fara fram.

Það stingur í stúf að einmitt hv. 1. flm. frv. hefur staðið hér í stólnum og annars staðar og flutt langar ræður um óþarfan eftirlitsiðnað á Íslandi sem ríkisvaldið og sveitarfélögin stundi. Hann hefur að ýmsu leyti rétt fyrir sér í því að slíkum stofnunum og eftirlitsmönnum hættir til að hlaða utan á sig og þarf að fylgjast með því. En hér er hann að setja af stað eftirlitsiðnað eftirlitsiðnaðarins, sérstaka hillurýmiseftirlitsstofnun þar sem menn fara með sérstaka mæla væntanlega, tommustokka, málbönd eða rúmmetramæla, til þess að vita hvort tiltekin verslun fer fram yfir 5% í áfengisgeymslurými. Ég spyr enn: Er það ætlunin að ráðherra, og þá hvaða ráðherra, setji reglugerð um hvernig eigi að mæla fimm prósentin? Er þetta flatarmál eða er þetta rúmmál? Er það þannig að áfengisflöskurnar þurfi að taka ákveðið pláss í hillurýminu og hvernig á að mæla það saman við aðrar vörur? Er það þannig að þyngd spili kannski inn í? Þessi 5%-tala er auðvitað fullkomlega úr lausu lofti og varla gerð til annars en þess að sætta sjónarmið, annars vegar stjórnlyndismanna meðal flutningsmanna og hins vegar þeirra sem frjálslyndari þykjast, og reyna með einhverjum hætti að samræma sjónarmið þeirra flutningsmanna úr Sjálfstfl. sem hér standa að baki.

[19:00]

Ég vil að lokum segja þetta, virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði að frv. snerist um frelsi einstaklingsins til að kaupa áfengi. Þetta heyrði ég þó að ég heyri stundum eitthvað vitlaust. Frelsi einstaklingsins til þess að kaupa áfengi. Mikið er frelsi einstaklingsins. En hvað segir þá hv. þm. Pétur Blöndal um frelsi einstaklingsins til að gera hitt og þetta annað? Hvað er öðruvísi við frelsi einstaklings til þess að kaupa áfengi eða frelsi einstaklingsins til þess að neyta þeirra fíkniefna og vímuefna sem nú eru bönnuð?

Hvar er frelsi einstaklingsins til þess að reykja hass? Er það eitthvað ómerkilegra frelsi en frelsi einstaklingsins til þess að kaupa og drekka áfengi? Þetta þarf hv. flm. Pétur Blöndal að skýra fyrir þingheimi og þjóðinni. Það varðar einmitt áfengisstefnu hans og álit hans á því frelsi sem hver einstaklingur eigi að hafa. Það er aldrei að vita nema ég sé að einhverju leyti sammála Pétri Blöndal eða ósammála honum í þessu. En hann verður að ganga skrefi lengra. Þegar hann hefur sagt A um frelsi einstaklingsins til þessa máls verður hann að segja B um frelsi einstaklingsins til annarra mála.