Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 19:03:27 (3962)

2002-02-04 19:03:27# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[19:03]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. verður auðvitað að sæta því að rýnt sé í orð hans og texta eins og hann lítur út í grg. og í frv. Þegar hv. þm. kallar til sérstök mannréttindi og sérstakar hugsjónir um frelsi einstaklingsins til að gera eitt eða annað þá hlýtur hann að þurfa að svara því hver sé munurinn á þessu frelsi og öðru frelsi. Er það þannig að vegna þess að áfengi sé löglegt eigi að hafa eins marga útsölustaði á því og hvar sem er? Auðvitað eru þetta vörur. Það sem er selt og keypt er vara. Ólögleg fíkniefni eru líka vörur. Þær eru vörur. Þær eru að vísu ekki seldar á leyfilegum markaði en það má kalla þær það.

Það er þannig með þær vörur sem hv. þm. nefndi og ég nefndi áður að þær sæta allar sínum sérstöku skilyrðum. Það er vegna þess að við lítum ekki á þær eins og hverja aðra vöru. Þegar verið er að ræða áfengi verður að taka tillit til þess hvort áfengisneysla eykst, hvort af stafar meiri eða minni hætta á alkóhólisma og ýmsum þeim kvillum sem af áfengisneyslu leiða. Þegar menn taka einn þátt í umbúnaði áfengis út úr þá verða þeir að gera okkur hinum grein fyrir hvernig áhrif það hefur á aðra þætti og um það hef ég spurt og ekki fengið svör. Hvaða áhrif hefur þessi aukna dreifing og öðruvísi dreifing áfengis á auglýsinga- og kynningarþáttinn?