Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:50:07 (3987)

2002-02-04 21:50:07# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:50]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Halldórs Blöndals um að þeir sem kvænist snæfellskum konum séu vel kvæntir. Hann hefur áhuga á Snæfellsnesi og áfengissölumálum þar.

Frv. sem hér er til umræðu er lagt fram undir því yfirskyni að verið sé að auka frelsi og að fólk þurfi að vera frjálsara og óþvingað þegar það þarf að ná sér í vín. Þess vegna hljóta óhjákvæmilega að vakna upp þær spurningar hvort mönnum sem er umhugað að geta fengið keypt áfengi hjá kaupmanninum á horninu finnist ekki eðlilegt að vín sé selt í sem allra flestum verslunum.

Hugsum okkur að það séu fimm verslanir í Grundarfirði, fyrst sú góða byggð hefur verið nefnd hér, herra forseti. Spyrja mætti hvort það sé þá ekki réttlæti í því að hver einasta verslun sem þar er geti selt vín. Matvöruverslunin, barnafataverslunin, sælgætisverslunin, olíuverslunin, raftækjaverslunin og þær allar, að vín geti verið á boðstólum þar hjá þeim öllum. Það hlýtur náttúrlega að fylgja með hugsuninni um frelsið að allir sem hafa verslunarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði geti fengið að selja vín, hvort sem það er maðurinn í matvörubúðinni, konan sem er að selja barnafötin eða maðurinn sem selur blómin.

Hins vegar vil ég taka undir þau orð sem hér hafa fallið, að það er leitt að enginn flutningsmanna frv. sé hér við umræðuna. Af því má draga þá ályktun að þeir hafi kannski ekkert sérstakan áhuga á að þetta frv. fari í gegn. Ég tel þá ástæðulaust, herra forseti, að leggja sérstaka áherslu á það í umræðunni í þinginu að þetta mál fari í gegn. Þetta mál má greinilega bíða.

Það vekur líka athygli mína að sá stjórnmálaflokkur sem lofaði því að leggja fram 1 milljarð í forvarnir skuli ekki hafa neinn fulltrúa sinn við umræðuna um þessi mál.

Að selja vín sem víðast virðast einkunnarorð þessa frv. Þannig skil ég þetta. En að selja vín sem víðast er ekki rétt. Það er rangt. Ef við förum að selja áfengi í flestum matvöruverslunum, flestum verslunum úti á landi --- hugsum okkur þetta þúsund manna byggðarlag sem við nefndum hér áðan, þar væri selt vín í fimm verslunum, þá mundi það auka líkurnar á að börn og unglingar komist í vínið og hafi aðgang að því. En það ber okkur að koma í veg fyrir af öllum mætti.

Hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, vitnaði í orð mín og sagði réttilega eftir mér að engum dytti í hug að banna áfengisneyslu í landinu. Það er alveg rétt. Ég sagði það en ég varpaði líka fram spurningu beint í framhaldi af því. Sú var tíðin að áfengisneysla var bönnuð í landinu og ég spurði í framhaldi af því, herra forseti: Hvers vegna var áfengisneysla bönnuð í landinu? Mér finnst hafa skort svolítið á það í umræðunni hér að fjalla um hvaða áhrif áfengisneysla hefur á samfélagið.

Lítum í dagbók lögreglunar síðasta mánudag og athugum hvar lögreglan hefur þurft að vera mest á vettvangi. Ætli það sé ekki á þeim stöðum þar sem menn hafa verið að bergja á áfengi, verið ölvaðir og jafnvel í eiturlyfjaneyslu? En læknar og þeir sem lært hafa sérstaklega í þessum fræðum setja jafnaðarmerki á milli áfengis og eiturlyfja.

Herra forseti. Ég tel að í þessu frv. komi fram ákveðin stefnumörkun í áfengismálum. Sú stefnumörkun er að auka eigi aðgengi að áfengi til muna, eins og t.d. hér í höfuðborg Íslendinga. Ég gat ekki betur skilið á einum hv. þm. hér áðan en að helst þyrfti áfengi að vera selt í öllum matvöruverslunum, kaupmaðurinn á horninu var nefndur en reyndar er það svo að sú stétt manna er að eyðast. Kaupmennirnir á horninu eru í raun orðnir nokkuð fáir og við vitum náttúrlega hvers vegna það er.

En við þurfum að hugsa um, herra forseti, hvort við viljum horfa fram á frelsi neytandans í þeirri mynd að 5% hillurýmis í blómabúðum, barnafatabúðum, matvöruverslunum, byggingavöruverslunum, olíuverslunum, sælgætisverslunum, jafnvel vídeóleigum sé uppfullt af víni. Ef það á að skapa frelsi og gleði og ánægju landsbyggðarmanna þá held ég að það sé mikill misskilningur. Ég nefndi hér fyrr, herra forseti, að landsbyggðarmönnum ríður á að fá önnur lög til bjargar í byggðamálum en þetta frv. til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak.

Ég vona, herra forseti, að lokum að þetta frv. komist ekki úr nefnd.