Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 23:17:47 (4008)

2002-02-04 23:17:47# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[23:17]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir að lýsa yfir stuðningi við þessa þáltill. sem við leggjum hér til. Hv. þm. er einn af fáum þingmönnum Sjálfstfl. sem koma hér upp og ræða enn þá um byggðamál. Og fyrir það þakka ég sérstaklega. Ég vænti þess að hv. þm. muni þá tala fyrir því inni í þingflokki Sjálfstfl. og við fulltrúa Sjálfstfl. í iðnn. að þessi tillaga fái brautargengi en verði ekki svæfð þar inni.

Hér var rætt um flutningskostnað. Og ég bið hv. þm. afsökunar á því að hafa bara talað um þrjár ferðir austur á Seyðisfjörð. Ef þær eru fimm, alla virka daga vikunnar, eru það 350.000 kr. í þungaskatt sem íbúar Seyðisfjarðar greiða fyrir vöruflutninga þangað austur, og ef annað er tekið með í þetta er kostnaðurinn vegna þungaskattsins, olíu, slits á dekkjum og launa rúmlega ein milljón sem fer svo beint út í verðlagið eins og ég sagði áðan. Og það er ekki lítil tala sem leggst á og fer beint út í verðlagið, sama hvort þá er verið að flytja nauðsynjavöru, matvöru eða hráefnisvöru til iðnframleiðslu, e.t.v. til að flytja hana svo aftur suður, að við tölum ekki um margfeldisáhrifin sem þetta hefur allt saman gagnvart virðisaukaskattinum.

Herra forseti. Ég fagna því, trúi því og treysti að við höfum fengið góðan baráttumann fyrir því að þessi þáltill. fái brautargengi í gegnum þingið, þetta verði kannað og sú nefnd muni vinna fljótt og vel og skila tillögum áður en þing kemur saman í haust.

Bara rétt af því að ég gleymdi því áðan og af því að hv. þm. var að tala um flutningskostnaðinn. Ég á þá flutningatöflu sem er í gildi í dag. Það hefur komið fram og það er hér í þessum töflum að það kostar samkvæmt gjaldskrá 62 kr. á kg að flytja 30 kg frá Reykjavík til Seyðisfjarðar. Ef flutningurinn er 300 kg eða meiri kemur smáafsláttur, verðið fer ofan í 32 kr. á kg. Við skulum ímynda okkur að verið sé að flytja eitt bretti af kaffi, 300 kg, og 32 kr. á hvert kg af kaffinu. Gjörið svo vel.