Eldi nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 17:04:46 (4068)

2002-02-05 17:04:46# 127. lþ. 69.8 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[17:04]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um eldi nytjastofna sjávar. Markmið þessa frv. er, eins og fram kemur í 1. gr. þess, að stuðla að ábyrgu eldi nytjastofna og tryggja verndun villtra nytjastofna sjávar. Til þess þarf í fyrsta lagi að tryggja gæði framleiðslunnar og í öðru lagi að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum í lífríki hafsins og í þriðja lagi að tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna.

Frumvarp þetta var upphaflega lagt fram á síðasta þingi í tengslum við frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum, sem varð að lögum á síðasta vori. Frumvarpið er nú endurflutt með þeim breytingum sem kynntar voru í sjútvn. sl. vor. Til viðbótar þeim breytingum er nú lagt til að veiting rekstrarleyfa skv. 3. gr. verði tímabundin til fimm ára í senn.

Upphaflega stóð til að frumvarpið mælti fyrir um gjaldtöku fyrir útgáfu rekstrarleyfis og meðferð umsókna samkvæmt gjaldskrá. Þar sem vinna við mótun gjaldskrár er ekki hafin og í ljósi þess að vandkvæðum er bundið að útfæra gjaldskrá á þann hátt, að gjaldið sé í réttu hlutfalli við raunverulegan kostnað við meðferð umsóknar og útgáfu rekstrarleyfis, er ákveðin hætta á duldri skattheimtu. Því þykir rétt að ákvörðun um gjald fyrir útgáfu rekstrarleyfis og meðferð umsókna bíði þeirrar allsherjarendurskoðunar sem til stendur að gera á lögum á þessu sviði.

Í 5. gr. frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að komið verði á gjaldtöku fyrir eftirlit sem miðast við raunkostnað.

Í lögunum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum, er m.a. kveðið á um að sett verði á laggirnar fiskeldisnefnd er skuli vera til ráðgjafar og stefnumótunar fyrir fiskeldi bæði á landi og í sjó. Þá skal nefndin fara með þau mál sem henni eru falin samkvæmt þeim lögum. Um fiskeldisnefnd er jafnframt fjallað í 4. gr. þessa lagafrv. og er þar fyllsta samræmis gætt.

Ákvæði laga um lax- og silungsveiði varðandi fiskeldi taka vitaskuld einungis til ferskvatnsfiska eins og þeir eru þar skilgreindir. Við auðlindastjórnun er mikilvægt að leitast við að samræma ólíka hagsmuni, t.d. hagsmuni af fiskveiðum, hagsmuni af eldi á ferskvatnsfiski og hagsmuni af eldi nytjastofna sjávar. Til að tryggja samræmda stefnumótun og framkvæmd reglna um fiskeldi er mikilvægt að þeir ráðherrar sem að þessum málum koma hafi aðgang að sambærilegum upplýsingum og njóti sambærilegrar ráðgjafar. Fiskeldisnefndinni er m.a. ætlað að vera sjávarútvegsráðherra til ráðgjafar við þá vinnu sem fram undan er við framangreindar úrbætur.

Ég er þess fullviss, herra forseti, að fyrirliggjandi lagafrv., nái það fram að ganga, er mikilvægur áfangi í því að hið opinbera geti sett fiskeldinu farsælt skipulag og þannig gert atvinnugreininni fært að eflast og dafna, allt eftir því sem landkostir og rekstrarforsendur leyfa.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.