Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 17:59:04 (4076)

2002-02-05 17:59:04# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er fram haldið umræðu sem fram fór sl. fimmtudag um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Þessi þáltill. er borin fram af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs en hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er 1. flm. Fyrstu tveim klukkustundum umræðunnar var útvarpað og sjónvarpað en umræðunni lauk ekki og er nú fram haldið.

Í fyrri ræðu minni talaði ég einkum um gildi þjóðaratkvæðagreiðslu og færði rök fyrir því að efnt væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um mestu álitamál sem uppi væru í samtímanum hverju sinni. Það sem hér um ræðir er óneitanlega slíkt mál. Í fyrsta lagi er um að ræða óafturkræf náttúruspjöll sem stóriðju- og virkjanaáform stjórnvalda hefðu í för með sér ef þau næðu fram að ganga. Um þetta deilir enginn. Um það deilir enginn að þessi áform hefðu í för með sér óafturkræf náttúruspjöll ef þau næðu fram að ganga. Menn reyna hins vegar að réttlæta þessi spjöll á þeirri forsendu að hinn efnahagslegi ávinningur sé svo mikill að um annað sé ekki að ræða en að ráðast í þessar framkvæmdir.

[18:00]

Annar þáttur í að æskilegt og nauðsynlegt væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál er lýðræðislegs eðlis. Staðreyndin er sú að þjóðin skiptist í flokka í þessu máli, ekki eftir þröngum flokkspólitískum línum. Þannig eru fjölmargir stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna andvígir áformum um virkjun. Því væri eðlilegt að gefa því fólki kost á því að láta hug sinn í ljós í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á hitt ber að líta að málið er flókið. Það er að mörgu leyti flókið og margslungið, einkum þegar litið er til hinna efnahagslegu þátta. Þau sjónarmið hafa heyrst við þessa umræðu að einmitt það mæli gegn því að við efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er ósammála þessum sjónarmiðum. Þvert á móti væri það líklegt til að varpa ljósi á flókin mál, að efna til mikillar umræðu í þjóðfélaginu. Það sem meira er, þeir sem fara með völdin, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem hún styðst við, verða að færa rök fyrir sínu máli. Þeir verða að sannfæra þjóðina um gildi síns málstaðar. Ef menn trúa á sinn málstað sé ég ekki hvað ætti að standa í vegi fyrir því að látið yrði reyna á vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Undir lok ræðu minnar vék ég að hinum efnahagslegu þáttum þessa máls. Þetta mál hefur geysilega efnahagslega þýðingu, bæði til skamms tíma og langs tíma litið. Til skamms tíma litið þá mun þessi innspýting fjármagns inn í efnahagslífið, 350 milljarðar kr. þegar á heildina er litið, skapa mikla þenslu. Það mun auka verðbólgu og án efa leiða til þess að Seðlabankinn muni hafa forgöngu um að keyra upp vexti og ýta vaxtastiginu upp.

Til skamms tíma mun það einnig gerast að við verðum að opna landið betur fyrir erlendu vinnuafli sem tæki þátt í uppbyggingunni á Austurlandi. Þar eru vissulega skammtímaáhrif og þetta er eitt af því sem Þjóðhagsstofnun hefur bent á að nauðsynlegt verði að gera. En Þjóðhagsstofnun bendir á fleira, --- við skulum ekki gleyma því að þar eru miklir áhugamenn um virkjanir yfirleitt, hún hefur bent á aðra þætti þessa máls. Hún hefur bent á verðbólguna. Hún hefur bent á vaxtastigið. Hún hefur bent á að við þurfum að opna landið upp á gátt fyrir erlendu vinnuafli.

En það sem mér finnst kannski ekki hafa verið skoðað nógu rækilega eru áhrifin til langs tíma. Hér sté í pontu einn þingmaður, sérstaklega er mér það minnisstætt, það var 1. þm. Norðurl. e., hv. þm. Halldór Blöndal. Hann spurði hvers vegna menn gagnrýndu svona hina gjaldeyrisskapandi atvinnuvegi. Nú er mér fullljóst að menn borða ekki ál. Menn bera ekki heldur ál á tún. Menn flytja ál út. Fyrir það fáum við gjaldeyri. Í þeim skilningi er álframleiðsla gjaldeyrisskapandi. En hvað kostar það okkur að skapa þennan gjaldeyri? Hvaða valkostir eru þar í stöðunni? Við því legg ég hlustir. Ég hlusta á unga hagfræðinga. Ég nefni sem dæmi Þorstein Siglaugsson. Ég nefni Sigurð Jóhannesson sem færir rök fyrir því, í hefti Vísbendingar sem birtist í desembermánuði, að þetta sé mjög óskynsamleg ráðstöfun til að afla gjaldeyris. Hún sé dýr. Hún sé mjög dýr og aðrir valkostir séu miklu betri.

Hvað segir sjálfur fjármálastjóri Landsvirkjunar? Hann segir: Ef við ættum að meta virkjunina á markaðsgrundvelli og láta hana standa eina og óháða mundi þetta fyrirtæki aldrei rísa undir sjálfu sér. Þarf ekki að hlusta á svona rök? Þarf ekki að svara svona rökum? Þeim er ekki svarað í þessum sal. En ef við efndum til þjóðaratkvæðagreiðslu ætti ríkisstjórnin og sá stjórnarmeirihluti sem hún styðst við hér á þingi ekki annarra kosta völ en að færa rök fyrir sínu máli og reyna að sannfæra þjóðina um málstað sinn.

Ég get ekki skýrt það á nokkurn annan hátt en þann að menn hafi efasemdir um eigin málstað ef þeir þora ekki að láta á það reyna í þjóðaratkvæðagreiðslu hver raunverulegur vilji íslensku þjóðarinnar er í þessu afdrifaríka máli.