Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:06:56 (4077)

2002-02-05 18:06:56# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði við höfum sannarlega gert upp hug okkar hvað varðar svæðið norðan Vatnajökuls. Við viljum hafna Kárahnjúkavirkjun eins og hún er sett upp í dag, þeim stórkostlegu framkvæmdum, þeim stærstu sem um getur í Íslandssögunni, sem eiga að stífla Hafrahvamma og mynda þar risauppistöðulón. Það er fyrirsjáanlegt --- alla vega hefur ekki verið hægt að sýna fram á annað --- að þær muni valda gróðureyðingu og leirfoki um langan tíma.

Við höfum gert upp hug okkar. Við viljum að svæðið verði gert að þjóðgarði og höfnum virkjuninni sem slíkri. Við höfum aftur á móti ekki tekið neina afstöðu til þess hvort virkja eigi Jökulsá á Dal með rennslisvirkjun. En við höfnum þessu stóra uppistöðulóni og höfnum því að vatnaflutningurinn eigi sér stað, að Jökulsá á Dal sé flutt yfir í Jökulsá í Fljótsdal. Þessi tvö stóru atriði standa upp úr. Það mætti finna aðrar leiðir til þess að nýta orkuna í Jökulsá á Dal en ekki með þessum hætti.

Aðrir hafa e.t.v. ekki gert upp hug sinn vegna þess að ekki hefur farið fram kynning eða umræða í þjóðfélaginu um hvað þjóðgarður gæti hugsanlega gefið okkur varðandi atvinnu og markaðssetningu landsins á móti því sem stóriðja og stórvirkjun mundi gera. Við teljum að þeim sem hefur ekki verið boðið upp á neitt annað en byggðastefnu sem byggist á stóriðju --- annaðhvort stóriðju eða ekki neitt --- hafi ekki gefist möguleiki til að skoða aðra kosti, t.d. að nota þá fjármuni sem eiga að fara í virkjanir og stóriðju til annarrar uppbyggingar.

Við viljum með þessari þáltill. gefa þeim sem vilja skoða aðra þætti möguleika á að taka þátt í atkvæðagreiðslunni með því að svara ekki annaðhvort já eða nei við Kárahnjúkavirkjun. Við höfum heyrt það hér í umræðunni að valkostirnir sem við nefnum hér til þess að kjósa um séu óljósir.

Við viljum í fyrsta lagi að kosið verði um hvort nýta eigi svæðið samkvæmt áformum um Kárahnjúkavirkjun, það er alveg ljóst. En við viljum í öðru lagi fresta ákvörðunum uns tekin verði ákvörðun um verndun svæðisins og stofnun þjóðgarðs.

Þeir sem hafa talað hafa haldið því fram að þetta sé of óljóst. Þarna ættu kostirnir að vera já eða nei. Áróðurslega séð hefði það eflaust verið heppilegra. Við vorum ekki að horfa á þetta út frá áróðursgildinu heldur málefnalega. Við vildum gefa þeim sem vildu skoða málið betur kost á að þurfa ekki að svara afdráttarlaust já eða nei.

Við erum ekki vön því að nota þjóðaratkvæðagreiðslur við ákvörðun stórra mála. Ég held, herra forseti, að það sé kominn tími til að við tökum til afgreiðslu fjölmargar þáltill. sem hér hafa verið lagðar fram. Þær eiga eftir að koma fram fleiri um þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. varðandi það hvaða mál eru svo stór eða af hvaða tilefni skuli afgreiða málið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Mál af þessum toga geta komið upp á miðju kjörtímabili, mál sem ekki hafa verið í umræðunni eða verið hluti af kosningabaráttunni. Fólk hefur því ekki gefið stjórnmálaflokkunum eða framboði atkvæði sitt vegna þeirra mála þar sem þau hafi ekki komið upp.

Sum mál eru einfaldlega svo stór, t.d. innganga okkar í EES að að mínu mati hefðum við átt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þá vorum við að afsala okkur hluta af sjálfstæði þjóðarinnar. Við ættum skilyrðislaust að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu ef okkur dytti það einhvern tímann í hug að leggja það til að ganga í Evrópusambandið.

Herra forseti. Ef tekin er afstaða á móti einhverju þá er það vegna þess að maður vill eitthvað annað. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum aðra sýn til byggðamála og uppbyggingar atvinnulífs og mannlífs á landsbyggðinni en núverandi ríkisstjórn. Við trúum því ekki að stóriðja sé nútímabyggðastefna. Hún hefur ekki reynst vel sem byggðastefna víða annars staðar. Við erum talin vera 10--20 árum á eftir tímanum og ættum taka upp nútímalegri stjórnunarhætti og horfa bjartari augum til framtíðarinnar en svo að horfa til stóriðjunnar sem einhvers hornsteins í byggðamálum.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum nota kraftana til þess að byggja upp atvinnulíf á forsendum byggðarlaganna sjálfra. Sem betur fer býr hver fjórðungur yfir miklum verðmætum, bæði til lands og sjávar. Stóriðja mun alltaf kalla á stórvirkjanir með stórum og miklum uppistöðulónum.

Við höfum iðulega verið spurð að því hvort raunin sé sú að það megi eingöngu virkja til stóriðju á suðvesturhorninu. En það vill nú þannig til, herra forseti, að Þjórsársvæðið hefur verið mjög hagstætt til veitna, og sérstaklega með öllum þeim samtengingum sem hægt hefur verið að koma á en nú er svo komið að þeir virkjanakostir eru að verða uppurnir eins og sjá má á þeim hugmyndum sem eru uppi, áformum um að ganga frekar á Þjórsársvæðið.