Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:15:12 (4078)

2002-02-05 18:15:12# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þuríður Backman nefndi að hún hefði þá sýn að það ætti að virkja Jökulsá á Dal með rennslisvirkjun, (ÞBack: Mætti.) eða mætti, eins og þingmaðurinn leiðréttir mig nú. Það væri áhugavert að heyra með hvaða hætti sú rennslisvirkjun ætti að vera ef þingmaðurinn hefur kynnt sér það. Þær útfærslur sem ég hef heyrt á virkjun Jökulsár á Dal mundu hafa gífurlega miklar umhverfisraskanir í för með sér á Jökuldal og þar yrði fórnað búsetu Jökuldælinga. Ég spyr hv. þm.: Er það sú sýn sem þingmaðurinn hefur á virkjun Jökulsár á Dal, að fórna megi bæði umhverfi og búsetu á Jökuldal?

Þingmaðurinn nefndi einnig rammaáætlunina. Það er alveg ljóst að þegar verkefnishópur sem vinnur að ramma\-áætlun hefur skilað af sér og mun væntanlega skila af sér í áföngum, þá er þar eingöngu um vinnuplögg að ræða sem síðan á eftir að taka pólitískar ákvarðanir um. Er það það sem þingmaðurinn bíður eftir, að þegar búið verður að greiða atkvæði, og ef það færi þannig að menn veldu að bíða og fresta eins og Vinstri grænir hafa nú sem sýn á lífið, þá yrði það síðan pólitísk ákvarðanataka ráðherra og ráðuneytis hvernig verður virkjað í framhaldinu?