2002-02-06 14:09:24# 127. lþ. 71.92 fundur 313#B bréf Verslunarráðs til viðskiptaráðherra um rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólöglegu verðsamráði olíufélaganna# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hlusta á hvað hv. þingmenn Samfylkingarinnar segja hér, að þegar upp kemur að mörgum finnst pottur brotinn í starfsemi opinberrar stofnunar eigi viðkomandi ráðherra hvergi að koma þar nærri. Það er athyglisverð skoðun og fróðlegt væri að vita hvort þetta ætti við um starfsemi opinberra stofnana yfirleitt.

Þannig er í þessu máli að aðgerðin gegn olíufélögunum var lögregluaðgerð. Hún er mikil frelsisskerðing og innrás í einkalíf tuga starfsmanna í viðkomandi félagi. (Gripið fram í: Úrskurðuð af Héraðsdómi Reykjavíkur.) Úrskurðuð af Héraðsdómi Reykjavíkur, vekur hv. þm. athygli á. Þess vegna skiptir afar miklu máli að farið sé eftir þeim úrskurði sem fyrir liggur og að farið sé eftir þeim lögum sem um þetta gilda.

Þeir tugir starfsmanna sem starfa í þessum fyrirtækjum ljúka upp einum rómi í gagnrýni á þessa aðgerð og vísbendingarnar um að ekki hafi verið farið eftir þeim lögum sem um þetta gilda, lögum um meðferð opinberra mála að því er varðar leit og hald á munum, eru afar sterkar. Það er lagt hald á gögn sem skipta engu máli. Það er lagt hald á persónuleg gögn starfsmanna, tölvupóst, og athyglisvert er hvað þingmenn sem þykjast bera persónlega hagsmuni starfsmanna og persónuvernd fyrir brjósti eru allt í einu tilbúnir til þess að fórna því öllu saman í þessu tilviki.

Mér finnst að það skipti líka máli að í engu tilviki er starfsfólkinu bent á að það geti borið ágreiningsefni undir dómara. Þannig má áfram telja. Það virðist í mjög mörgum tilvikum vera þannig að lögum um meðferð opinberra mála hafi ekki verið hlýtt.