2002-02-06 14:17:50# 127. lþ. 71.92 fundur 313#B bréf Verslunarráðs til viðskiptaráðherra um rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólöglegu verðsamráði olíufélaganna# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst þessi umræða hafa leitt það í ljós að sú tilraun sem verið er að gera felst í því að þvinga og beygja hæstv. ráðherra til að hafa afskipti af þessu máli. Það virðist liggja nokkuð í augum uppi. Það er enginn vafi á því að þeir sem hafa verið órétti beittir við þessa rannsókn ef þannig hefur verið, hafa möguleika til þess að bera hönd fyrir höfuð sér og þeir geta kært þetta mál og fengið úrskurð í þeim kærumálum. Mér finnst það með ólíkindum ef menn ætla sér að reyna á einhvern hátt að kveða niður þá starfsemi sem þarna er í gangi og er mjög mikilvægt að þingið og þjóðin standi við bakið á núna. Ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að hugsa sig afar vandlega um áður en hann lætur undan pólitískum þrýstingi til að hafa afskipti af þessu máli og lætur það verða til þess að skemma fyrir þeirri starfsemi sem þarna er á ferðinni.