Hvalir

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:45:26 (4153)

2002-02-06 14:45:26# 127. lþ. 71.2 fundur 258. mál: #A hvalir# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Það kemur kannski í beinu framhaldi af þeim að maður geti ályktað sem svo að það er alveg ljóst að hvalirnir hafi áhrif á afrakstur botnfiskstegundanna. Það er nokkuð augljóst. Menn eru að tala hér um sjálfbæra þróun og jafnvægi í lífríkinu. Það er mjög eðlilegt að við reynum að halda þessu jafnvægi.

Ég er einn af áhugamönnum þess að hefja hvalveiðar og hvet hæstv. sjútvrh. til að auka rannsóknir í þá þágu að menn viti meira um þetta. Er át hvalanna á botnfiskstegundum partur af náttúrlegri dánartíðni þessara tegunda o.s.frv.?

Ég veit að hæstv. ráðherra er að vinna að því hörðum höndum að undirbúa inngöngu okkar í Alþjóðahvalveiðiráðið og vil ég hvetja hann til þess svo að við getum hafið á veiðar á hvölum hér við land.

Ég var einn af þeim þingmönnum sem fóru í heimsókn til Írlands á haustmánuðum. Þar hittum við hagsmunaaðila í sjávarútvegi á Írlandi. Þar var vandamálið selir. Þeir átu mikið af sjávarfangi við Írland. En hvalirnir hafa ekki verið eins mikið rannsakaðir. Írarnir töldu að þetta væru stór og falleg dýr sem væri gott að horfa á og vildu ekkert meira með það hafa. En selirnir voru þar vandamálið og Írar unnu að því að fækka selum við Írland af því að þeir tóku sjávarfangið frá fiskimönnunum.

Ég þakka hæstv. sjútvrh. enn og aftur fyrir skýr svör.