Hvalir

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:47:21 (4154)

2002-02-06 14:47:21# 127. lþ. 71.2 fundur 258. mál: #A hvalir# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að mestu leyti ágætar umræður undir þessum fyrirspurnum. Ég held að öllum eigi að vera ljóst sem þessi mál skoða að hvalastofnar af þeirri stærð sem þeir eru hljóta að hafa áhrif á lífkerfið. Jafnvel má draga þá ályktun án mikilla gagna að þau hljóti að vera veruleg og að aðrir hlutar vistkerfisins eins og sjófuglar og selir geri það líka þó að sem betur fer sé ástandið þannig varðandi seli hjá okkur að áhrif þeirra eru í lágmarki.

Það hefur einmitt verið stefna íslenskra stjórnvalda um langan aldur, vil ég segja, að lyfta þeim sjónarmiðum á alþjóðavettvangi þannig að þau fái þar sinn sess, að sjálfbær nýting auðlindanna eigi við um allar auðlindir, ekki bara hluta þeirra og að þegar við tölum um vistkerfisnálgun séum við bæði að tala um þau áhrif sem fiskstofnarnir og fiskveiðar hafa á umhverfið og einnig þau áhrif sem umhverfið hefur á fiskveiðarnar og fiskstofnana. Vonandi tekst okkur það og þá munu þau markmið nást sem við höfum sett okkur varðandi hvalveiðar.