Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:53:53 (4160)

2002-02-06 14:53:53# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta fyrirspurn. Hún er í þremur liðum og ef ég byrja að svara fyrsta lið þá hefur kynning á málstað Íslands varðandi hvalveiðimál farið fram bæði gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum víða um heim. Málið hefur verið tekið upp í viðræðum við stjórnvöld erlendra ríkja og við ýmis tækifæri og ýmsir þættir á afstöðu Íslands þannig kynntir fyrir bæði stjórnmálamönnum og embættismönnum. Einnig hefur málstaður Íslands verið kynntur fyrir forráðamönnum ýmissa fyrirtækja sem stunda verslun við Ísland.

Þetta hefur bæði verið gert á fundum þar sem hvalveiðimál hafa einungis verið eitt umræðuefni af mörgum og á fundum sem haldnir hafa verið sérstaklega til þess að ræða hvalveiðimál.

Varðandi fjölmiðla hef ég og aðrir hæstv. ráðherrar og ýmsir embættismenn í sjútvrn. og öðrum ráðuneytum kynnt hvalveiðimál og málefni þeim tengd fyrir blaðamönnum alls staðar að úr heiminum. Einnig hefur málstaður Íslands verið kynntur fyrir samtökum sem hafa það að markmiði að vinna fylgi við sjálfbæra nýtingu á auðlindum hafsins eins og t.d. High North Alliance. Hefur málstað Íslands þannig verið komið á framfæri við almenning ýmissa landa, t.d. í gegnum dagblöð, netmiðla og útvarps- og sjónvarpsútsendingar. Þessir fjölmiðlar eru allt frá því að vera staðbundnir í ákveðnum borgum til þess að nást um allan heim. Þetta starf verður að teljast mikilvægt þar sem almenningur í ýmsum löndum er á móti hvalveiðum að miklu leyti vegna ranghugmynda um hvali og ástand hvalastofnanna.

Við kynningu á málstað Íslands hefur áhersla oft verið lögð á nauðsyn þess að horfa á vistkerfi hafsins sem eina heild og að hvalir séu umfram allt hluti af því vistkerfi. Upplýsingum um stöðu ólíkra hvalastofna hefur verið komið á framfæri, en einn útbreiddasti misskilningurinn í alþjóðlegri umræðu um hvalveiðimál er einmitt að allir hvalastofnar séu í útrýmingarhættu og að hvalveiðar ógni því hvalastofnum óháð því hversu stórtækar þeir séu. Við höfum reynt eftir fremsta megni að koma sannleikanum að í þessu efni.

Annar liður varðar kostnað. Árlegur kostnaður við kynningju á málstað Íslendinga hefur orðið sem hér segir sl. þrjú ár: Árið 1999 9,8 millj. kr., árið 2000 14,4 millj. kr. og árið 2001 33,9 millj. kr., samtals 58,1 millj. kr. Þess ber að geta að sérstök fjárveiting til þessara mála var fyrst veitt af Alþingi fyrir árið 2000.

Í fjárlögum ársins 2002 er ráðgert að verja 25 millj. kr. til verkefnisins og má gera ráð fyrir að óskað verði eftir svipaðri upphæð í frv. til fjárlaga fyrir árið 2003. Áfram verður haldið með kynningu á málstað íslenskra stjórnvalda, almennings og fyrirtækja víða um lönd með svipuðum hætti og undanfarin missiri. Varðandi áherslur vísast í svarið við fyrsta lið þessarar fyrirspurnar.