Einkarekstur göngudeildar við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:25:32 (4180)

2002-02-06 15:25:32# 127. lþ. 71.4 fundur 303. mál: #A einkarekstur göngudeildar við Landspítala -- háskólasjúkrahús# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa verið. Ég held að ég láti mér ályktunarorð hv. fyrirspyrjanda um samanburð við fyrrv. heilbrrh. í þessu sambandi, að ég sé ekki eins opinn fyrir þessari leið, í léttu rúmi liggja. Mikil vinna hefur farið fram innan Landspítalans um þessi mál og ég er að fara yfir þau með þeim sem að hafa komið.

Ég hef í rauninni engu við það að bæta sem ég sagði um einkareksturinn, ég hef ekkert á móti honum. Ég er sammála því að vissulega þarf að nýta þann hátæknibúnað sem er á spítölunum sem best, það hef ég alltaf sagt. Hins vegar snýst það mál um peninga. Það snýst ekkert um rekstrarform í sjálfu sér. Það mál snýst um peninga. Við erum að semja við spítalana um auknar aðgerðir af því að við fengum 80 millj. á fjárlögum til að stytta biðlista. Það mun koma til góða í starfsemi spítalanna.

Ef ég fæ fjármuni í hendurnar get ég gert þetta og ég hef alls ekki útilokað neitt rekstrarform í því efni. Þetta snýst um fjármuni. Það skulu hv. þm. athuga. Þetta snýst ekkert um rekstrarform eins og oft virðist vera þegar verið að tala um að biðlistar séu í landinu. Það snýst um peninga.