2002-02-06 15:38:03# 127. lþ. 71.5 fundur 399. mál: #A þátttaka almannatrygginga í ferðakostnaði foreldra barna á meðferðarstofnunum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa verið hér. Ég hef lýst afstöðu minni til þessa máls. Varðandi framkvæmdina þá hef ég rætt ýmis sameiginleg mál við félmrn. og mál sem skarast milli ráðuneyta. En eins og hv. þm. þekkir þá eru þau æðimörg. Ég er fús til þess að taka þetta mál upp í þeim viðræðum sem við eigum saman. Að öðru leyti hef ég engu við mín fyrri svör að bæta.

Varðandi fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv. um réttindi langveikra barna og foreldra þeirra þá þekki ég þetta mál. Þessar aðstæður hafa verið kynntar mér, bæði af embættismönnum ráðuneytisins og fulltrúum þeirra hópa sem í hlut eiga. Ég tel að við eigum að vinna að úrbótum á þessu sviði án þess að ég vilji kynna tillögur í því efni á þessari stundu. Mér er alveg ljóst að þarna er mismunur á. Aðstaða foreldra langveikra barna að þessu leyti er ekki sambærileg hér á landi og í þeim löndum sem við miðum okkur við. Mér er vel kunnugt um það.