Vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 16:01:23 (4194)

2002-02-06 16:01:23# 127. lþ. 71.15 fundur 432. mál: #A vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Björnssyni fyrir að vekja máls á þessu því að hér er um brýnt hagsmunamál að ræða fyrir Suðurland. Yfir Hellisheiði er gríðarleg umferð. Þar ökum við margir hverjir þingmenn kjördæmisins um nær daglega getum við sagt og vitum vel hve mikil umferð er á þessari leið.

Þetta er auðvitað líka spurning um peninga og fjármögnun og ég er ekki inni á því að við eigum að nota til þessa fjármagn úr svokölluðum ferðamannaleiðum og jaðarbyggðum sem eru 35 millj. kr. á ári. (Gripið fram í.) Ég er ekki inni á því en um það var rætt um tíma í þingmannahópnum. Engu að síður verðum við að finna lausn á þessu máli. Ég tel afar brýnt að lýsa upp t.d. við Þrengslaafleggjarann. Það kostar ekki mikla peninga og við getum drifið það áfram. Við þurfum að þoka þessu máli áfram og koma því í höfn en ég ítreka að ég er ekki inni á því að nýta í þetta fjármagn úr ferðamannaleiðum og jaðarbyggðum.