Vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 16:03:56 (4196)

2002-02-06 16:03:56# 127. lþ. 71.15 fundur 432. mál: #A vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki miklu við það að bæta sem hér hefur komið fram. Það er engin launung á því að þingmenn Suðurlands hafa stefnt að því um nokkuð langt skeið að Hellisheiðin verði lýst. Hins vegar liggur líka fyrir að það fjármagn sem hefur verið til skiptanna hefur ekki verið nægilegt til þess að hægt sé að ráðast í þetta verkefni. Menn hafa verið að leita leiða til þess að fjármagna þetta verkefni. Það hefur ekki gengið sem skyldi.

Þess ber að geta líka í þessu samhengi að ekki hefur alveg verið einhugur og samstaða hjá sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi um hvort taka ætti þetta verkefni fram yfir annað. En það breytir ekki hinu og kjarninn er einfaldlega sá að til þess að hægt verði að ráðast í þetta verkefni þarf að fá í það fjármagn. Við verðum að setja allt okkar traust á þá ríkisstjórn sem nú situr, að hún leggi í þetta fjármagn. Ekki er í önnur hús að venda svo það er svo sem lítið annað að gera en að brýna hæstv. samgrh. til góðra verka.