Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:46:09 (4205)

2002-02-07 10:46:09# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:46]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þetta mál er allt hið sérkennilegasta þegar haft er í huga að hér hefur verið staðið að stjórnsýslu með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Það er dálítið sérkennilegt að sá læknir sem fellir úrskurð sinn um flugmann og telur hann ekki hæfan til að fljúga nema innan íslenska flugstjórnarsvæðisins (Gripið fram í: Með öðrum.) --- nema innan íslenska flugstjórnarsvæðisins.

Það er líka dálítið merkilegt að þegar úrskurðarnefnd hefur fellt úrskurð sinn skuli þessi sami aðili, embættismaður Flugmálastjórnar, senda út til kollega sinna póst til að fá staðfestingu á því sem hann hefur gert eftir að úrskurður hefur fallið af hálfu þriggja sérfræðinga kollega hans sem hafa meiri menntun en hann sjálfur. Þessi ágæti maður er um leið að grafa undan íslensku flugöryggi með þeim hætti sem hér er unnið og staðið að.

Það segir: ,,Stjórnsýsluúrskurður samgönguráðuneytisins um málsmeðferðina var í samræmi við stjórnsýslureglur og fól eingöngu í sér fyrirmæli til Flugmálastjórnar um framkvæmd stjórnsýsluathafnar. Ráðuneytið hafði engin afskipti af efni heilbrigðisvottorðs eða læknisfræðilegum álitamálum.``

Síðan koma menn hér upp og segja að hér hafi verið brotin stjórnsýslulög, ráðuneytið sé að blanda sér í málið með óeðlilegri íhlutun. Og hv. frummælandi byrjar á því að undrast það mjög að ráðuneytið skuli koma að þessu máli. Var það ekki eðlilegt í úrskurði þar sem einstaklingur á í hlut að tekið væri á málinu? Það gerði samgrn., eins og því ber að gera hvað stjórnsýslulög áhrærir, þannig að málið er allt mjög sérkennilegt. Það er búið að gera einstakling að blóraböggli í þessu máli vegna þess að það hefur verið mjög óeðlilega að því staðið af embættismanni Flugmálastjórnar, lækninum.