Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:04:12 (4213)

2002-02-07 11:04:12# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), samgrh. (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er mjög alvarlegt mál þegar þingmenn bera ráðherra þeim sökum að þeir beiti valdníðslu. Það er mjög alvarlegt mál í mínum huga. Hv. þm. hefur ekki fært fyrir því nokkur einustu rök. Það eina sem stendur upp úr þessari umræðu og þessum fullyrðingum og þessum stóryrðum af hans hálfu er að hann virðist gjörsamlega sem lögfræðingur vera búinn að gleyma lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Ég hvet hv. þm. til þess að fara betur yfir þau fræði áður en hann tekur þátt í þessari umræðu næst.

Lögmætisreglan gengur fyrst og fremst út á það að stjórnvöld, há sem lág, verða að fara að lögum. Ég fór að lögum þegar ég tók þetta mál til meðferðar og það eru vinnubrögð sem eðlilegt er, að sjálfsögðu, að ráðherra ástundi. Ég vænti þess ekki að hv. þm. sem er að tala um valdníðslu ætlist til þess að ráðherrar fari ekki að lögum.