Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:34:56 (4215)

2002-02-07 11:34:56# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:34]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir mjög góða og yfirgripsmikla framsöguræðu með þessu, að mínu mati, merkilega frv. Með því eru mörkuð ákveðin tímamót varðandi stefnumótun hafna hér á landi í samræmi við nútímastjórnunarhætti. Það er eðlilegt að við hvetjum til aukinnar samkeppni á milli hafna. Það hefur komið fram áður í máli mínu á fyrri þingum að mér hefur ekki þótt fyllsta samræmi milli þess hvernig ríkisstyrkum hefur verið dreift á hafnir, m.a. hafnir sem staðið hafa í samkeppni við hafnir á suðvesturhorninu. En það stendur allt til bóta í þessu frv. Með því er reynt að ýta undir samkeppni án þess að það komi niður á hinum dreifðu sjávarbyggðum.

Ég vil þó hvetja til að farið verði vandlega yfir hvar beri að veita og hvernig beri að haga ríkisstyrkjum áfram varðandi uppbyggingu hafna. Það er afar mikilvægt, eins og fram kom í máli hæstv. samgrh. áðan, að styrkja sjávarbyggðir en það má ekki vera þannig að við förum að byggja upp hafnir líkt og gert var með flugvelli, sem er hægt að benda á víðs vegar um landið, sem síðan var hætt að nota. Þetta verður allt að gera á markvissan hátt.

Mín spurning til hæstv. samgrh. lýtur að virðisaukaskattsskyldunni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafnirnar verði virðisaukaskattsskyldar en á hinn bóginn hafa vaknað spurningar varðandi það hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af erlendum skipum og þjónustu. Er það einnig ætlunin með þessu frv.?