Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:37:06 (4216)

2002-02-07 11:37:06# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessar athugasemdir og spurninguna. Fyrst vil ég segja að ég tek að sjálfsögðu undir það sem hv. þm. sagði, að frv. felur í sér miklar breytingar og nýjungar hvað varðar rekstur hafnanna og skapar, að ég tel þó að ég vildi ekki gefa neitt heilbrigðisvottorð um það út af fyrir sig, heilbrigðari viðskiptahætti og rekstrarumhverfi á þessu sviði. Það fer ekki á milli mála.

Í því felst m.a. það sem hv. þm. spurði um, sem ég tel mjög eðlilegt að vakin sé athygli á, að auðvitað verða allir viðskiptaaðilar, jafnt innlendir sem erlendir, að greiða virðisaukaskatt af þjónustu nema sérstaklega sé um það fjallað í löggjöf um virðisaukaskatt. Þetta þarf að sjálfsögðu að taka til meðferðar þegar þau mál verða sérstaklega meðhöndluð. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni er það á forræði fjmrh. En við gerum ráð fyrir því í þessu stjfrv., sem hér er til umfjöllunar, að hafnirnar verði virðisaukaskattsskyldar. Þá þarf að taka þetta alveg sérstaklega til skoðunar.

Ég tel mikilvægt að allir sitji við sama borð hvað þetta varðar en ábending hv. þm. er athyglisverð og við þurfum að taka hana upp þegar við fjöllum um breytingar á lögum um virðisaukaskatt hvað varðar virðisaukaskatt af höfnum.