Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:43:09 (4219)

2002-02-07 11:43:09# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:43]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir þessar ábendingar. Ég tel að það eigi ekki að þurfa að skapast hætta á að stærri hafnir eflist á kostnað minni hafna vegna þessa frv. sérstaklega. Það er ljóst að nú þegar er mjög mikil samkeppni um viðskiptin, aðallega samkeppni um viðskiptin við fiskiskipaflotann. Um þau viðskipti keppa hafnirnar nú þegar og nota til þess þjónustugjaldsskrána þó að gjaldskrá sé samræmd hvað varðar aflagjald og lestar- og bryggjugjöld eins og við þekkjum.

Ég held að með því skipulagi sem við erum að koma á hér tryggjum við áfram hagsmuni litlu fiskihafnanna með því að þeim verði áfram veittir ríkisstyrkir. Hinar hafnirnar verða þá að keppa sín á milli eins og eðlilegt er, eins og þær gera í dag á grundvelli þjónustunnar.

En ýmsar hafnir hafa ratað í raunir og rekstrarlega erfiðleika. Það hefur verið tekið tillit til þess í framlögum til Hafnabótasjóðs. Þær hafnir hafa af efnahagslegum ástæðum fremur fengið styrki í gegnum tíðina vegna framkvæmda. Þannig hefur verið tekið tillit til þeirra að nokkru en ég held að það þurfi þá að skoða sérstaklega í samgn. hvort ástæða sé til að koma upp einhverjum viðbótarviðlagasjóði vegna slæmrar afkomu hafna. En auðvitað verður að líta til þess að hafnirnar eru reknar á ábyrgð sveitarfélaga eins og er og ég á ekki gott með að sjá að við getum greitt rekstrartap hafnanna aftur í tímann.