Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:15:44 (4226)

2002-02-07 12:15:44# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:15]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er fjarri öllu lagi sem hv. þm. segir, að hér séu menn að fara fram úr sjálfum sér. Fyrir þinginu liggur frv. um gerð samræmdrar samgönguáætlunar. Hér er frv. til nýrra hafnalaga sem tekur tillit til þess og gerir ráð fyrir að það frv. verði að lögum. Stefnan er því skýr hvað þetta varðar. Ég fór sérstaklega yfir það þegar ég mælti fyrir frv. um samgönguáætlunina að tillögur stýrihópsins væru grundvöllur þessara breytinga.

Varðandi það að hættulegt sé að stofna hlutafélög um hafnir vegna þess að þar með sé hægt að selja þær þá snýst málið ekkert um það. Það er verið að skapa hér eðlilegra rekstrarumhverfi og skapa þeim sem eiga hafnir möguleika á vali. Vinstri grænir í borgarstjórn Reykjavíkur hafa t.d. verið að gera slíkt, m.a. með því að kaupa sig inn í og stofna sameignarfélag með öðrum sveitarfélögum um rafveitur, vatnsveitur, um hlutafélög o.s.frv. Þannig að hv. þm. Jón Bjarnason er ekki í nútímanum.