Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:18:28 (4228)

2002-02-07 12:18:28# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:18]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Við höfum hlýtt hér á enn eina undarlega ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fulltrúa Vinstri grænna á Alþingi. Málflutningur hv. þm. í þeirri ræðu var eins og oft áður mjög sérkennilegur. Hér er verið að þyrla upp moldviðri og gera mönnum upp skoðanir. Ég trúi því að annaðhvort sé þetta gert vísvitandi í miklum blekkingarleik eða að menn viti ekki betur.

Röksemdafærslan í öllu þessu moldviðri byggir á tvennu eins og fram kom í ræðu hv. þm. Annars vegar bendir hv. þm. á að skoða þurfi málin í heild sinni. Síðan kemur hæstv. samgrh. og bendir hv. þm. réttilega á að það liggja þegar fyrir hv. Alþingi tillögur stýrihóps um samræmda samgönguáætlun þar sem til stendur að tengja saman einstaka þætti samgangna, hið mikilsverðasta plagg og eitt af merkari plöggum sem hér hefur komið fyrir Alþingi. Þetta virðist hv. þm. ekki hafa séð eða kynnt sér nægilega vel og ég spyr hann hvort svo sé.

Í öðru lagi er talað um að nú eigi að fara að selja hafnirnar. Ekki var eitt orð í ágætri framsöguræðu hæstv. samgrh. um það. Ég spyr hv. þm. hvort hann þekki það vel til í rekstri að hann kannist við að hlutafélagaformið geti verið þægilegra rekstrarform, ekki síst ef sveitarfélög hyggjast vinna saman, búa til hafnasamlög. Menn á þessu sviði, í sveitarstjórnum og hafnargeiranum hafa bent á að hlutafélagaformið sé þægilegra í allan stað við slíkan samruna.

Í þriðja lagi spyr ég hv. þm., af því að hann talar um að hér eigi að fara að setja á óeðlilega samkeppni milli hafna: Telur hv. þm. að ekki sé samkeppni á milli hafna í dag?