Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:22:36 (4230)

2002-02-07 12:22:36# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:22]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað vekur það mann til umhugsunar þegar hv. þm. koma hér upp og fara í raun með staðlausa stafi. Ég tel að hv. þm. Jón Bjarnason hafi sannað það í andsvari sínu. Röksemdin hjá hv. þm. var sú að það væri ekki búið að skilgreina hlutverk hafna í framtíðinni. Þegar því er svarað og hv. þm. er bent á tillögur stýrihópsins þá segir hann: Það er ekki orðið að lögum. Gott og vel. Hér erum við einnig að fjalla um frv. sem ekki er heldur orðið að lögum. Það er verið er að vinna málin í samhengi. Hins vegar kýs hv. þm. ítrekað að líta fram hjá þeirri staðreynd til þess að þyrla upp vantrú og minna trausti gagnvart því sem hér er verið að gera.

Í öðru lagi fjallar hv. þm. um rekstrarformið hlutafélag án þess að gera grein fyrir og svara því sem ég beindi til hans áðan, hvort hann vildi ekki virða þann sjálfsákvörðunarrétt þeirra sveitarfélaga sem kjósa að fara í samstarf og leggja saman hafnir í hafnasamlag með þessu bætta rekstrarformi. Það hefur enginn talað hér um sölu nema hv. þm. Jón Bjarnason.