Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:25:29 (4232)

2002-02-07 12:25:29# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:25]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Jón Bjarnason höfum oft rætt um samgöngumál og ekki er langt síðan tekist var á um þau mál í þingsölum. Komumst við þá að þeirri niðurstöðu að rétt væri að auka samkeppnishæfni sjóflutninganna vegna landflutninganna þar sem 2/3 þeirra sjóflutninga sem áður voru stundaðir eru nú komnir á þjóðvegina. Við töluðum líka um nauðsyn þess að fólk í hinum dreifðu byggðum fengi matvöru sína fljótt og vel og ekki á síðasta merkta söludegi vörunnar. Þetta liggur allt ljóst fyrir.

Hvernig á þá að bregðast við í samkeppni sjóflutninga við landflutninga? Verður það gert með því að gera fleiri hafnir? Dettur þingmanninum í hug að menn muni standa í löngum biðröðum eftir því að fá keyptar hafnir? Nei. Sannleikurinn er nefnilega sá að rekstur fiskihafna hefur um langt árabil verið með þeim hætti að útgerðin hefur ekki borgað raunverulegt þjónustugjald fyrir fiskiskip, það sem það kostar að reka höfnina en það er önnur saga.

Ár eftir ár hafa ársfundir Hafnasambands sveitarfélaga lagt til í samþykktum sínum að lögum um hafnir verði breytt í þá veru sem hér er nú komið fram í lagafrv. Eins og fram kemur hafa verið skipaðir aðilar í nefnd sem hafa setið á hafnarsambandsþingum og samþykkt tillögur sem hér eru komnar á blað.

Ég óttast ekki að þetta verði á kostnað borgarans eða leiði til lélegri þjónustu í höfnum. Þvert á móti erum við að byggja upp, eins og hæstv. samgrh. kom inn á og meira að segja þingmaðurinn hefur tekið undir og fagnað, samræmda samgönguáætlun í flugi, á vegum og í siglingum. Nú erum við að stíga enn eitt skrefið til þess að auka enn betur samkeppni við landflutninga með þeim hætti að flutningahafnirnar verði í samræmi við vegakerfið.