Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:49:24 (4240)

2002-02-07 12:49:24# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:49]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki miklu við þessa umræðu að bæta. Ég vil í upphafi þakka hæstv. samgrh. fyrir mjög skýra og greinargóða framsögu með þessu ágæta máli.

Hér er vissulega um stórt mál að ræða eins og fram hefur komið í ræðum sem hafa verið fluttar. Um róttæka breytingu á hafnaáætlun og hafnalögum er að ræða. Ég freistast til þess að skoða frv. í tengslum við samræmda samgöngu\-áætlun sem reyndar hefur komið til umræðu, það mæta verk sem kynnt hefur verið fyrir Alþingi frá stýrihópi þar um á vegum samgrn. Má segja að mjög tímabært hafi verið að fjalla um vegamál, hafnamál og flugsamgöngur í einu heildarsamhengi og það er væntanlega engin tilviljun að nýjar áherslur varðandi hafnalög skuli koma skömmu eftir að tillögur stýrihópsins um samræmda samgönguáætlun eru kynntar.

Segja má að það séu einkum þrír þættir sem breytingarnar snerta. Í fyrsta lagi er aðkoma ríkisins. Með frv. er verið að marka þá stefnu að ríkið dragi verulega í aðkomu sinni að uppbyggingu hafna.

Í öðru lagi er verið að breyta rekstrarformi hafna og skapa þar meiri sveigjanleika þannig að einstakar hafnir og hafnasamlög geti valið sér það rekstrarform sem best hentar þó að, eins og fram hefur komið, hv. þm. Vinstri grænna eigi erfitt með að átta sig á þeirri hugsun.

Í þriðja lagi er verið að skapa almennar og sveigjanlegri leikreglur til að hafnir landsins geti tekið þátt í þeirri hörðu samkeppni sem þegar á sér stað, ekki einungis samkeppni milli einstakra hafna heldur líka samkeppni hafnanna við flutninga á vegum sem hafa verið að aukast verulega eins og margsinnis hefur komið fram.

Eins og öllum er ljóst, herra forseti, hefur á síðustu árum og áratugum milljörðum króna verið varið til uppbyggingar á hafnarmannvirkjum um land allt. Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í samgönguháttum landsmanna má segja að sumpart, svo kalt sem það hljómar, sé um offjárfestingu að ræða eins og staðan er í dag, þ.e. að nýtingin á þeim hafnarmannvirkjum sem til eru sé ekki í samræmi við þau verðmæti sem þar liggja.

Því má segja, herra forseti, að frv. þetta feli í sér afskaplega merkilega stefnumörkun, að með því sé verið að segja að heildaruppbyggingu hafna, þ.e. stærri hafnarmannvirkja, sé lokið hvað ríkisvaldið varðar en innihald frv. lúti meira að rekstrinum þar sem horft er til framtíðar á þeim grundvelli sem liggur fyrir hvað varðar þau mannvirki sem þegar hafa verið byggð.

Mjög mikilvægt er að skoða ákveðna þætti þegar leikreglur eru settar í nýju samkeppnisumhverfi. Eins og frv. gerir ráð fyrir þarf að taka ýmsa þætti til athugunar og verður það gert í hv. samgn. Ég vil þar fyrst nefna atriði sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi í ræðu sinni, skuldastöðu einstakra hafna. Hún er afskaplega misjöfn og sorglega mörg dæmi eru um hafnir sem standa afskaplega illa og valda meira að segja miklum deilum innan sveitarfélaga og milli sveitarfélaga þar sem um hafnasamlög er að ræða, hin gífurlega erfiða skuldastaða. Það er mál sem hlýtur að verða tekið til skoðunar í hv. samgn. og athugað hvort einhver langtímaáætlun verði gerð í gegnum Hafnabótasjóð eða með öðrum hætti til að leysa þann vanda með það í huga að samkeppnisstaða einstakra hafna um land allt verði sem jöfnust. Sjálft segir sig að með breyttu umhverfi standa þær hafnir sem verst eru settar, skuldsettastar, auðvitað verr að vígi en þær hafnir sem betur eru í stakk búnar til að hefja leik.

Í öðru lagi, herra forseti, hljótum við að taka til umhugsunar án þess að það endilega tengist beint frv. --- það er bara sú þróun sem á sér stað og ítrekað hefur verið gerð að umtalsefni í þessari umræðu og annarri --- hvernig flutningar hafa mjög ört verið að færast af sjó á land þar sem stórir og miklir vöruflutningabílar aka landið þvers og kruss, slíta vegum með tilheyrandi kostnaði en notkun hafnanna og flutningar sjóleiðis farið minnkandi.

Spyrja má í þessu sambandi hvernig verður í samkeppninni og í ljósi þess hvað landflutningarnir eru orðnir ráðandi þáttur í þessu, hvort hinar stóru hafnir muni beinlínis kæfa hinar minni í ljósi styrkleika síns þar sem þær njóta ýmissa samlegðaráhrifa þar sem þær geta vegna stærðarinnar hugsanlega boðið upp á hærra þjónustustig og hvort það þjónustustig muni laða að sér enn frekari skipaflutninga.

Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna eitt. Af því að fiskur, bæði hráefni og unnin vara, er fluttur landshorna á milli og við höfum séð gerast, m.a. hjá fullvinnsluskipum sem í vaxandi mæli eru farin að leggja afla sinn upp í Reykjavík þar sem flutningaskipin eru, þá má velta því upp, ég er ekki að segja að það muni gerast en það má velta því upp, ef það verður almenn þróun í ljósi betri þjónustu, lægri gjalda og þar fram eftir götunum að fiskiskip sjái hag sinn í því að landa t.d. í Reykjavík þar sem flutningaskipin eru, þar sem hinir öflugu flutningabílar eiga flestir endastöð eða upphafsstöð. Hvaða áhrif hefði slík þróun á hafnir í sjávarplássum landsins sem byggja tekjur sínar fyrst og fremst á lönduðum afla?

Þetta er þróun sem hefur verið að eiga sér stað og ég nefni þetta bara í tengslum við umræðu þessa frv. þó að ég sjái ekki að frv. stuðli frekar að því en gildandi hafnalög.

Ég vil velta einu upp, herra forseti. Ég kann ekki í sjálfu sér svar við því en hlakka til að skoða það í vinnu samgn., og það er hvaða áhrif virðisaukaskattur á hafnir kann að hafa, bara efnahagsleg áhrif. Ég vil beina því til hæstv. samgrh. hvort virðisaukaskattur á hafnir muni leiða til þess að sá skattur muni beinlínis renna út í verðlag og hafa þá efnahagsleg áhrif. Ég velti þessu upp út frá því að hafnaþjónusta er jú meðal grunnþjónustunnar í landinu og grunnþjónusta hefur gjarnan verið undanþegin virðisaukaskatti. Maður hlýtur að taka til umhugsunar hvort virðisaukaskattur á hafnir hafi bein efnahagsleg áhrif og kunni að hafa óheppileg áhrif á vísitölu. Ég kann ekki svar við því, beini því til hæstv. ráðherra og að sjálfsögðu mun það verða skoðað í samgn.

Rétt að lokum, herra forseti, þykir mér vanta einn þátt í frv. sem verður skoðað í samgn. og það eru skyldur eigenda hafna, umhverfislegar skyldur. Minnst er á það í kafla um móttöku hafna þar sem eigendum hafnanna er gert skylt að sjá til þess að skipsflök og bílhræ og annað sem er á sjó, á yfirborði sjávar eða landi við hafnirnar, skuli fjarlægt en það er hins vegar allur sá óþverri sem er á hafsbotni, þ.e. á botni hafnanna. Kunnugt er að fólk freistast til að henda þangað alls konar drasli og er í rauninni mikill umhverfislegur smánarblettur fyrir okkur og væri mjög æskilegt að hefja þar átak eins og reyndar einstaklingar hafa verið að bisa við að undanförnu. Ég tel eðlilegt að í hafnalögum sé þessi umhverfisskylda sett á eigendur hafnanna, að annast umhverfisþáttinn, ekki bara það sýnilega heldur ekki síður það sem er á hafsbotni innan hafnarmannvirkjanna.

Ég læt þessu lokið, herra forseti. Ég tel að vinnan við að fara yfir þetta í hv. samgn. verði skemmtileg, og margir þættir sem þarf að skoða, en ítreka ánægju mína með að frv. skuli vera fram komið.