Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 13:01:31 (4242)

2002-02-07 13:01:31# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[13:01]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað ekki einfalt mál en samt er afskaplega einkennilegt að bílar, jafnvel þungir vöruflutningabílar, skuli mætast á Holtavörðuheiði, annar með þorsk að norðan á leið suður og hinn að sunnan með þorsk á leiðinni norður. Þetta er hins vegar þróun sem atvinnulífið hefur staðið að, og stendur að.

Eins og þingmðurinn benti réttilega á kostar þetta mikið slit á vegum sem við sjáum síðan í aukinni þörf í vegáætlun. Að auki skapar þetta slysahættu og því miður hafa orðið sorgleg slys vegna þessarar miklu umferðar.

Þingmaðurinn spyr hvort búa megi til einhvern innbyggðan hvata í lög sem leiði til þess að flutningar færist út á sjó aftur. Ég hygg að við hv. þm. séum mjög sammála um að Skipaútgerð ríkisins verði ekki endurvakin. En ég hygg að þetta sé eitt af stærri verkefnunum sem um verður fjallað í samræmdri samgönguáætlun sem hér hefur ítrekað komið til umræðu, og það er verkefni sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir eins og aðrar þjóðir, að nota skattkerfið á eldsneyti. Nú blasir við að vistvænir orkugjafar munu verða teknir í notkun hérlendis og erlendis á næstu árum. Þá þurfum við m.a. að svara því hvernig við ætlum að fjármagna vegakerfið þegar bensín og olía verða ekki aðaleldsneytisgjafarnir. Þá þurfum við að finna aðrar leiðir til þess. En það er ein leiðin sem hægt er að fara, þ.e. að beita sérstökum sköttum eða skattaívilnunum til að ,,þvinga`` fyrirtæki til að fara sjóleiðina.

Þetta er alveg dæmigert verkefni sem verður spennandi að vinna að í samræmdri samgönguáætlun og sýnir enn einu sinni hversu mikilvægt plagg hún er.