Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:06:46 (4290)

2002-02-07 16:06:46# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á barnalögum, nr. 20/1992.

Tilgangur þessa máls er að bæta úr þeim ágalla á barnalögum að einungis móðir og barn geti átt aðild að barnsfaðernismáli. Mál þetta var áður flutt á 125. þingi og þá var 1. flm. hv. þm. Össur Skarphéðinsson en hann er flm. þessa frv. ásamt þeirri sem hér stendur og hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og Einari Má Sigurðarsyni.

Frá því að þetta mál var fyrst flutt hafa verið gerðar á því lítillegar breytingar í kjölfar þess að haldið var málþing um efni frv. á Kornhlöðuloftinu í fyrra og einnig að út kom rannsóknarverkefni sem unnið var af mannréttindahópi samtaka evrópskra laganema á Íslandi og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Skýrsla um það verkefni er fylgiskjal með frv. í þeirri mynd sem það er í dag en rannsóknarverkefnið nefndist ,,Pater est -- aðild þriðja manns að véfengingarmáli``. Þeir sem unnu það verkefni voru laganemarnir Bergþóra Ingólfsdóttir, Dýrleif Kristjánsdóttir, Edda Björk Andradóttir, Guðríður A. Kristjánsdóttir, Gunnhildur Pétursdóttir, Marín Ólafsdóttir og Sigríður Anna Ellerup.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er tilgangur þessa máls að bæta úr þeim ágalla á barnalögum að einungis móðir og barn geti átt aðild að barnfaðernismáli. Hæstiréttur Íslands kvað upp þann dóm 18. des. árið 2000 að þessi ágalli í barnalögum bryti í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þess vegna er orðið mjög brýnt að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í þessu frv. verði að lögum.

Faðerni barna er ákvarðað með fernum hætti samkvæmt núgildandi lögum. Í fyrsta lagi verða börn sem fæðast í hjúskap foreldra sjálfkrafa börn eiginmanns. Hér gildir svokölluð faðernisregla eða ,,pater est``-reglan sem byggist á því að svo sterkar líkur séu fyrir því að barnið sé getið við samfarir konunnar við eiginmann sinn að gengið er út frá því sem reglu. Reglan er því öðrum þræði hagkvæmnisregla en hún miðar einnig að því að vernda barnið og fjölskylduna í heild meðan þau sjálf vilja una við niðurstöðu reglunnar. Í öðru lagi nær reglan einnig til barna sambýlisfólks þegar foreldrar búa saman við fæðingu barnsins en er þó bundin því skilyrði að móðir hafi lýst mann föður. Í þriðja lagi verður barn sem fæðist utan hjónabands eða sambúðar feðrað með faðernisviðurkenningu þess manns sem móðir kennir föður þess. Í fjórða lagi verður barn fætt utan hjónabands eða sambúðar feðrað með dómi í faðernismáli gangist maður sem móðirin hefur lýst föður barns ekki við faðerninu.

Mikilvægustu réttarheimildina á sviði feðrunar barna er að finna í barnalögunum, nr. 20/1992, en þau eru jafnframt mikilvægasti lagabálkurinn á sviði barnaréttar. Barnalögin frá 1992 leystu af hólmi barnalög, nr. 9/1981, sem voru fyrstu sinnar tegundar hér á landi. Fyrir árið 1981 giltu lög nr. 57/1921, um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, og lög nr. 87/1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna.

Með barnalögum frá 1981 varð mikil breyting á réttarstöðu barna á Íslandi. Stigið var stórt skref í þá átt að afnema mismuninn á milli skilgetinna og óskilgetinna barna og var jafnframt leitast við að jafna félagslega stöðu barna með ákvæðum um framfærslu þeirra. Fyrir gildistöku laganna frá 1981 áttu börn ekki sjálfstæðan rétt til umgengni við feður sína né áttu feður rétt til umgengni við börn sín. Það var því fyrst árið 1981 sem börn á Íslandi öðluðust sjálfstæða réttarstöðu gagnvart foreldrum sínum án tillits til stöðu þeirra. Með lögunum frá 1992 var sjálfstæð réttarstaða barns gagnvart foreldrum sínum styrkt, réttarstaða barna varð hin sama án tillits til hjúskaparstöðu foreldra og gengið enn lengra í þá átt að jafna stöðu foreldra með því að styrkja réttarstöðu föður.

Árið 1989 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samning um réttindi barnsins. Hann var staðfestur fyrir Íslands hönd árið 1990. Markmið hans er að vernda börn í heiminum og byggist hann á því að börn hafi hvorki þroska til að skilgreina þarfir sínar né fylgja eftir réttindum sínum og þess vegna verði aðrir að gera það fyrir þau. Samkvæmt samningnum skulu börn hafa sjálfstæð réttindi óháð vilja foreldra eða annarra forráðamanna.

Í íslenskum rétti er ekki að finna ákvæði sem skyldar móður til að feðra barn sitt og karlmaður sem telur sig vera föður að barni hefur engin bein lagaúrræði til að fá skorið úr um hugsanlegt faðerni barns ef móðirin lýsir hann ekki föður. Þó má lesa úr barnalöggjöfinni þau grundvallarsjónarmið að ekki sé einungis æskilegt að börn verði feðruð heldur einnig að þau verði réttilega feðruð. Það birtist m.a. í því að ákveði móðirin að feðra ekki barn sitt öðlast hún ekki rétt á barnalífeyri samkvæmt almannatryggingalögum. Öðru máli gegnir ef móður tekst ekki að feðra barn sitt þrátt fyrir tilraunir til þess. Þá öðlast hún rétt til greiðslu barnalífeyris frá hinu opinbera en hún þarf að leggja fram gögn um að sér hafi ekki tekist að feðra barnið. Þá miða mörg ákvæða barnalaganna að því að niðurstaðan í faðernismálum leiði til rétts faðernis, þ.e. að sá maður sem lagði til sæði sem náði að frjóvga egg móðurinnar verði ákvarðaður faðir barnsins. Þannig eru gerðar strangar form- og hæfiskröfur til faðernisviðurkenningar svo sem í reglum um lögræði sem varða aldur og andlegt hæfi. Komi í ljós að fleiri en hinn lýsti faðir hafi haft samfarir við móður á líklegum getnaðartíma barnsins er ekki tekið mark á viðurkenningu heldur verður að höfða mál. Reglur um málsmeðferð barnsfaðernismála mótast einnig af því að faðir og barn hafi hagsmuni af því að niðurstaðan leiði til þess að kynfaðir verði jafnframt faðir að lögum. Hið opinbera hefur og hagsmuni af feðrun barns.

Barnalöggjöfin byggist á því meginsjónarmiði að barn hafi sjálfstæða réttarstöðu gagnvart foreldum og öðrum og sama gildir um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi réttindi barnsins geta verið lagaleg, félagsleg, efnahagsleg og menningarleg. Reglurnar miða að því að koma til móts við þarfir barnanna og þjóna hagsmunum þeirra. Þegar hagsmunir barns rekast á hagsmuni annarra, t.d. foreldra, skulu hagsmunir annarra víkja en hagur og þarfir barnsins ávallt sitja í fyrirrúmi.

[16:15]

R. Jóhannesdóttir) :

Samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðasamningum eiga börn rétt til verndar og umönnunar foreldra sinna. Um leið og slík réttindi eru virt er sú skylda lögð á herðar foreldrum að þau gegni þessum uppeldisskyldum. Í skyldunni felst að tryggja barni öryggi, sjá fyrir líkamleg um þörfum þess, sýna barni umhyggju og nærfærni og sjá til þess að barnið fái menntun í samræmi við hæfileika og áhugamál. Því má segja að réttur barnsins til umönnunar kynföður síns sem vill taka þátt í uppeldinu sé sjálfstæður réttur þess. Lagarök þessa sjálfstæða réttar eru byggð á sálfræðilegum og félagslegum viðhorfum, svo sem þörfinni til að þekkja réttan uppruna sinn og nauðsyn persónulegra tengsla við sína nánustu sem er mikilvægt fyrir mótun sjálfsímyndar og almennan þroska barnsins. Í 1. mgr. 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að börn eigi rétt á að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.

Ljóst er að börn hafa og fjárhagslega hagsmuni af réttri feðrun. Fyrir utan framfærslu föður njóta þau erfðaréttar eftir föður og föðurfrændur og þau geta öðlast skaðabótarétt fyrir missi framfæranda og lífeyrisréttindi við lát foreldris.

Í réttarvitund almennings er krafan um jafnan rétt einstaklinga orðin sjálfsögð og hefur náð að lita innviði samfélagsins. Þetta hefur speglast í löggjöf Vesturlanda. Þannig hefur réttarþróun miðað að því að jafna stöðu íslenskra barna án tillits til ytri aðstæðna, svo sem hjúskaparstöðu foreldra. Þróunin hefur einnig mætt kröfunni um að jafna beri stöðu foreldra gagnvart börnum sín með því að styrkja réttarstöðu föður, t.d. þegar óvígðri sambúð var jafnað við hjúskap við feðrun. Það gerðist einnig með lögfestingu réttar föður til umgengni við óskilgetið barn sitt. Þá hefur löggjafinn leitast við að jafna stöðu foreldra í ágreiningsmálum um forsjá og lögfest reglu um sameiginlega forsjá. Því er réttarstaða feðra í faðernismálum í hrópandi andstöðu við almenna réttarvitund og eðlilega þróun í jafnréttismálum á Íslandi. Hagsmunum föður af því að hafa samskipti við barn sitt verður að öllu leyti jafnað við hagsmuni móður. Því er það andstætt lögum nr. 97/1995 sem kveða á um að allir skuli jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis. Það er einnig í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 97/1995, og alþjóðasamninga á sviði jafnréttismála, sbr. 8. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, þar sem kveðið er á um rétt manna til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta, og í 14. gr. sömu laga er mælt fyrir um að þessi réttindi skuli tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis.

Í 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 97/1995, er kveðið á um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla. Takmörkun á aðgangi þeirra sem telja sig vera feður barna að dómstólum landsins gæti því verið í andstöðu við regluna sem tryggir aðgang manna að dómstólum. Þetta er einmitt í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar 18. des. árið 2000, þ.e. að sá ágalli væri á barnalögunum og að því leyti stæðust þau ekki 70. gr. stjórnarskrárinnar. En feður eiga rétt á að fá úrlausn mála um hagsmuni sína, hvort sem er í einkamálum eða sakamálum. Rétturinn er einnig tryggður í mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur verið lögfestur hér í heild og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Fjölskyldumynstrið hefur breyst ört á síðustu árum og í sífellt fleiri fjölskyldum er aðeins eitt foreldri ásamt barni eða börnum. Nú eru einstæðir foreldrar orðnir 8.665 og fara þeir með forsjá 12.479 barna. Árið 1996 fæddist 2.181 barn í sambúð foreldra en 445 börn utan sambúðar eða hjúskapar. Feðrun 2.626 barna ákvarðaðist því við faðernisviðurkenningu, dóm eða á grundvelli faðernisreglunnar eftir að móðir hafði lýst tiltekinn mann föður að barni. Kjósi móðirin að feðra ekki barn sitt er maður sem telur sig vera hinn rétta kynföður varnarlaus, hann getur ekki aðhafst og verður að una algjöru forræði móður.

Hér hefur verið bent á að reglur barnalaga miða að mörgu leyti að því að kynfaðir verði jafnframt faðir að lögum, en það er einnig stefna laganna að það gerist með sem minnstri röskun fyrir móðurina. Í seinni tíð hefur faðernismálum fækkað mjög og koma þar til örar framfarir í vísindum og tækni við rannsóknir í mannerfðafræði. Niðurstaða slíkra rannsókna kemst svo nálægt því að staðreyna rétt faðerni að nær öruggt er að dómari legði hana til grundvallar í dómi sínum. Þegar niðurstaða er fengin kemur viðurkenning oftast í kjölfarið og er dómsmál því óþarft eða fellur niður ef það hefur þegar verið höfðað. Því er vart um að ræða verulega röskun og óþægindi fyrir móður af málarekstrinum. Þá er og ólíklegt að kostnaður ríkisins af rekstri faðernismála verði mikill þótt lögbundin gjafsókn haldist hjá sóknaraðilum án tillits til þess hver höfðar málið. Hið opinbera hefur og fjárhagslega hagsmuni af því að barn verði feðrað. Reglu sem felur í sér slíka mismunun kynjanna og stríðir gegn almennri réttarvitund ætti að leiðrétta til samræmis við breyttan tíðaranda. Þótt mál af þessu tagi hafi í raun ekki verið mörg felur fjöldi þeirra barna sem feðruð eru að undangenginni yfirlýsingu móður í sér hættu á að slík mál komi upp og vert er að koma í veg fyrir það. Þá er fjöldi ágreiningmála ekki mælikvarði á tíðni tilvika því að búast má við því að einhverjir gefist upp og leiti ekki réttar síns þegar í ljós kemur að þeir eiga ekki aðgang að dómstólum til að fá skorið úr réttindum sínum og skyldum.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns fylgir í fylgiskjali skýrsla um rannsóknarverkefni sem mannréttindahópur samtaka evrópskra laganema vann í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Í þessari skýrslu koma fram mun ítarlegri rök fyrir því að þessi lagabreyting verði gerð. Þar eru tekin ýmis dæmi og samanburður við löggjöf í nágrannalöndum okkar.

Í niðurstöðum þessa rannsóknarverkefnis kemur fram að mikilvægt sé að gera þá lagabreytingu sem lögð er til í þessu frv. Fyrsta frv. sem gerði ráð fyrir slíkri breytingu og lagt var fram hér á 125. þingi einmitt eitt af þeim skjölum sem þessi hópur hafði til hliðsjónar við vinnu sína. Einnig kemur fram að með því að veita þriðja manni ekki aðild að vefengingarmáli sé verið að brjóta gegn þeim grundvallarmannréttinum barns sem getið er um í 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðann, þ.e. að börn eigi rétt á að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Með því er jafnframt komið í veg fyrir að barnið fái að kynnast fjölskyldu föður síns og á þann hátt er einnig hægt að loka fyrir öll samskipti föður og barns.

Eins og kom fram í máli mínu áðan geta börn haft fjárhagslega hagsmuni af feðrun en þau geta einnig haft aðra hagsmuni, t.d. þá að koma í veg fyrir skyldleikagiftingar og sömuleiðis nauðsynlega þekkingu sem hægt er að ná fram á sviði læknavísinda, en í læknismeðferð ýmiss konar er nauðsynlegt að börn viti hverjir þeirra kynforeldrar eru til að auka möguleika á lækningu við alvarlegum sjúkdómum sem byggja á skyldleika, svo sem við merg- og líffæraflutning. Sömuleiðis tengjast margir sjúkdómar erfðum og getur vitneskja um þær mögulega verið fyrirbyggjandi eða stuðlað að fyrirbyggjandi aðgerðum. Það er því verið að kasta hagsmunum barna fyrir róða þegar aðild þriðja manns er útilokuð að vefengingarmáli.

Ég ætla ekki að fara í gegnum alla þessa skýrslu, herra forseti. Hún er fylgiskjal með þessu frv. og er mjög fróðleg lesning fyrir þá sem hafa áhuga á réttindum þriðja aðila, þ.e. föður til að sækja rétt sinn í málum sem þessum. En það verður að líta á það sem eðlilega þróun í jafnréttismálum að faðir hafi sömu aðkomu að slíkum málum og móðir.

Í niðurstöðum segja laganemarnir sem unnu þessa skýrslu í samráði við Mannréttindaskrifstofuna, með leyfi forseta, um þýðingu þess að taka upp löggjöfina:

,,Við teljum að það þýði að einstök lönd verði að taka fyrsta skrefið þegar kemur að því að breyta réttarstöðu þriðja manns og karlmanna yfirleitt í feðrunarmálum. Ef til vill má segja að Hæstiréttur Íslands hafi tekið afdrifaríkt skref í þessa átt, með dómi sínum frá 18. desember árið 2000. Engu að síður er niðurstaðan, sem þar birtist, eðlilegt framhald af réttarþróun síðastliðinna áratuga og í samræmi við ríkjandi viðhorf.

Við teljum ekki ósennilegt að breyting verði á lagaumhverfinu hér á landi, í tengslum við réttarstöðu þriðja manns. Segja má að hlutverk föður í uppeldi og umönnun barna sinna hafi hlotið viðurkenningu samfélagsins í æ ríkari mæli. Endurspeglast þetta m.a. í löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof.`` --- Þar má auðvitað nefna feðraorlofið til sögunnar, herra forseti.

,,Við teljum að faðernisreglan verði áfram góð og gild meginregla, fái þriðji maður, sem leiðir að því líkur að hann sé faðir barns sem fætt er í hjónabandi annarra, möguleika á aðild. Þetta teljum við vera mannréttindi þriðja manns og barnsins. Við teljum þessa hagsmuni vega þyngra en þá hagsmuni sem búa að baki reglunni eins og hún er í dag.``

Þetta er niðurstaða hópsins sem vann skýrsluna sem er hér fylgiskjal.

Herra forseti. Ég hef lagt áherslu á það hversu mikilvægt er að þær lagabreytingar, sem við leggjum til hér í þessu frv., verði að lögum. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að barnalögin í dag brjóti í bága við stjórnarskrána og því er mikilvægt að þetta mál komist í gegnum þingið og verði að lögum.

Ég legg til að málið fari til hv. allshn. þingsins að lokinni 1. umr.