Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:28:04 (4291)

2002-02-07 16:28:04# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á barnalögum sem á að taka mið af rétti karlmanna sem telja sig feður en eiga ekki aðild að máli þar sem þeir eru ekki giftir móðurinni eða í sambúð með henni.

Þetta frv. og allur rökstuðningur með því gengur út frá því að þjóðfélagið sé tiltölulega slétt og fellt. Það gengur líka út frá því að kynsamband sé barninu afskaplega nauðsynlegt, að það sé á einhvern hátt lífsspursmál fyrir barn að þekkja kynföður sinn og alla þá ætt sem að honum stendur. Þá forsendu, herra forseti, set ég spurningarmerki við.

Í fyrsta lagi getur maður hugsað sér að kona eignist barn með manni, skilji við hann stuttu seinna eftir getnaðinn og taki upp sambúð við annan mann og byggi upp heilbrigða fjölskyldu og að sá maður sem giftist henni eða býr með henni taki við því barni sem hún ber undir belti sem sínu eigin. Þetta er góð og gegn fjölskylda, barnið elst upp í rólegu umhverfi og það er ekkert sem raskar þessari fjölskyldu. En þetta frv. gæti raskað þeirri fjölskyldu og er ekki til hagsbóta fyrir barnið, ekki að mínu mati.

Þá getur maður hugsað sér að kona eignist barn með manni sem er ofbeldismaður --- þeir eru til --- sem beiti hana líkamlegu ofbeldi. Það er því miður allt of algengt. Hún segir skilið við hann af þeirri ástæðu og óttast þann mann alla tíð. Sá maður hefur núna tæki, verði þetta frv. að lögum, til að nálgast þessa konu og vera í sambandi við hana alla tíð, sem faðir þessa barns. En hún mun aldrei treysta honum til að sjá um barnið vegna fyrri reynslu sinnar af manninum.

Segja má að það ákvæði í lögum að ef barn er ekki feðrað þá fái móðirin ekki barnsmeðlag sé ákveðin þvingun ríkisvaldsins til að ná fram sömu áhrifum. Það getur því oft verið mjög hastarlegt fyrir viðkomandi konu.

Síðan getur maður sett upp önnur dæmi sem eru öllu verri. Nú ætla ég að koma með þau. Gefum okkur að kona sé gift manni og henni verði nauðgað. Hvort sem hún kærir nauðgunina eða ekki þá eignast hún níu mánuðum seinna barn og það liggur ekki fyrir hver er faðir að því barni. Þá getur nauðgarinn, hvenær sem honum dettur í hug, mörgum árum seinna, komið fram og krafist barnsfaðernismáls, rifjað upp gömul mál. Ég er ekki viss um að það sé neinum til hagsbóta.

Síðan getum við hugsað upp enn eitt dæmi. Segjum að faðirinn sé þessi nauðgari eða einhver ofbeldismaður, hvernig sem það nú er, eða maður sem konan sleit samvistum við og er hugsanlega ekki af bestu sort. Segjum svo að konan eignist góðan og gegnan mann og þau verði af vinnu sinni rík og velmegandi og falli síðan bæði frá í slysi. Þá getur faðirinn, þessi kynfaðir, farið í barnsfaðernismál til að ná til sín erfðum eftir barnið, því að barnið erfði foreldra sína og hann sem forráðamaður, á grundvelli þessara lagabreytinga, gæti þá komið höndum yfir þetta fé.