Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:38:39 (4295)

2002-02-07 16:38:39# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi nokkur jaðardæmi sem gætu átt við og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur svarað því ágætlega.

Ég minni hv. þm. á að glæpamenn og ofbeldismenn í hjónaböndum geta líka verið feður barna. Það er allt til í þeim efnum. Við höfum aðra löggjöf í landinu sem tekur á slíkum ofbeldismönnum og glæpamönnum.

Verði konur þungaðar af völdum nauðgara grípa margar þeirra til fóstureyðinga en að auki eru úrræði í lögum til að koma í veg fyrir að í slíku tilfelli umgangist faðir barnið. Ég nefni þetta vegna þess að hv. þm. talaði um að það kynni að raska ró bæði móður og barns ef kynfaðir barns kæmi inn í rólegheitahjónaband móður með öðrum manni. Þá vil ég líka nefna að þetta barn gæti veikst af alvarlegum sjúkdómi sem ekki er hægt að lækna nema vitað sé hver kynfaðirinn er. Það er m.a. réttur barnsins. Þetta er eitt þeirra dæma sem ég nefndi sem rökstuðning í máli mínu áðan.

Auðvitað mætti taka hvert af þessum dæmum sem hv. þm. nefndi og benda á að þar sem þetta eru nánast jaðardæmi geti önnur löggjöf varið barnið í þeim efnum.

Eins og ég hef sagt tel ég það jafnréttismál og mannréttindamál að kynfaðir geti umgengist barn sitt og að barn geti fengið að vita hver kynfaðir þess er. Það eru stórir hagsmunir beggja aðila.