Þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:07:20 (4322)

2002-02-11 15:07:20# 127. lþ. 74.93 fundur 333#B þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Kristjáns Möllers í athugasemdum hans til stjórnar þingsins varðandi vinnulag við kynningu og meðferð á byggðaáætlun.

Samkvæmt lögum, að því er ég best veit, ber iðnrh. að leggja fram þáltill. um byggðaáætlun til næstu fjögurra ára fyrir Alþingi. Það er Alþingi sem fer í gegnum þá áætlun. Nú upplýsist það að hæstv. iðnrh. hefur lagt fram byggðaáætlun fyrir fjölmiðla. Hún telur það hinn rétta vettvang til að leggja fram byggðaáætlun og kynna það síðan á netinu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að spyrja: Í hvaða stöðu er þessi þáltill. um stefnu í byggðamálum? Er þetta bara kynningarplagg, sem finna má á netinu? Er búið að kynna þetta fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna og eru þeir búnir að fjalla um hana og samþykkja hana? Megum við kannski vænta þess að þegar þessi tillaga um byggðamál kemur fyrir Alþingi þá verði enn búið að breyta henni? Hver er staða þessa máls núna?

Eða er þetta sá háttur sem á að vera á, að þingmál séu fyrst kynnt í fjölmiðlum og síðan borin inn í þingið? (Gripið fram í: Með netið á milli.) Já, með netið á milli.

Hitt er svo líka athyglisvert að skýrsla Byggðastofnunar, sem var til umræðu á síðasta ári, var skýrsla fyrir árið 2000, virðulegi forseti. Hvenær verður þá gefið svigrúm fyrir hæstv. iðnrh. til að flytja skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar fyrir árið 2001, virðulegi forseti?