Sala Landssímans

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:29:22 (4336)

2002-02-11 15:29:22# 127. lþ. 74.1 fundur 324#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þau orð sem hv. þm. vitnaði til síðast af minni hálfu þýða að við teljum að Síminn hafi verið mældur á sanngjörnu verði. Þó að slík tilboð hafi ekki komið vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í veröldinni teljum við að Síminn hafi ekki verið of hátt metinn. Við teljum þvert á móti að hann hafi verið metinn af sanngirni. Þess vegna höfum við ekki viljað fallast á neinn afslátt af þeim tölum. Við höfum verið algjörlega fastir í því að veita ekki neinn afslátt af þeim tölum, af því að við teljum að Síminn hafi í upphafi verið rétt metinn.

Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það að fresta varanlega sölumeðferð á Símanum í eitt eða tvö ár eða þess háttar. Engin slík ákvörðun hefur verið tekin og áður en hún verður tekin verður hún rædd af einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar og samgrh.