Samkeppnisstofnun

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:30:31 (4337)

2002-02-11 15:30:31# 127. lþ. 74.1 fundur 325#B Samkeppnisstofnun# (óundirbúin fsp.), GunnS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Í yfirlýsingu frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna segir að leggja beri Samkeppnisstofnun niður, að völd embættismanna hennar séu óhófleg og styðjist ekki við efnahagsleg rök.

Það hefur vakið athygli mína að jafnan þegar hæstv. forsrh. ræðir verðlags- og samkeppnismálefni lætur hann hjá líða að taka afstöðu til aðgerða Samkeppnisstofnunar sem markað hafa tímamót í því skyni að sporna gegn fákeppni og einokun. Mikilvægt er að afstaða hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórnar til Samkeppnisstofnunar sé skýr. Því spyr ég:

Er hæstv. forsrh. sammála yfirlýsingu Sambands ungra sjálfstæðismanna um að leggja beri Samkeppnisstofnun niður og sammála þeim röddum efasemda úr þingflokki Sjálfstfl. sem borist hafa hingað inn í þingsali?

Ég spyr einnig: Er hæstv. forsrh. hlynntur því að Samkeppnisstofnun fái rýmri heimildir til verka eins og að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum?