Samkeppnisstofnun

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:31:52 (4338)

2002-02-11 15:31:52# 127. lþ. 74.1 fundur 325#B Samkeppnisstofnun# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta voru margar spurningar. Ég er ekki viss um að ég hafi numið þær allar. Samkeppnisstofnun var komið á laggirnar af Alþingi fyrir tilstuðlan ríkisstjórnar sem ég veitti forstöðu. Ég stóð að því og stend að því máli enn þann dag í dag. Ég er ósammála þeim ályktunum sem var vitnað til, af hálfu ungra sjálfstæðismanna. Það var fyrsta spurningin.

Varðandi hitt, hvort Samkeppnisstofnun sé hafin yfir gagnrýni, þá er ég ekki þeirrar skoðunar. Það er afar þýðingarmikið að hún í sínu mikla og mikilvæga verkefni hafist jafnan að þannig að það sé hafið yfir tortryggni. Það tel ég vera rétt og skynsamlegt.

Ég var fylgjandi því að völd Samkeppnisstofnunar yrðu aukin. Það var gert. Ég var fylgjandi því og það var samþykkt hér á þinginu. Ég hef sagt opinberlega að ég telji að ef aðili er kominn með markaðsráðandi stöðu, til að mynda 60% á matvælamarkaði í einhverju landi, og það komi fram að slík yfirburðaaðstaða hafi verið misnotuð þá hljóti ríkisstjórn og þing að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að tryggja að hægt sé að breyta slíkri stöðu.

Því hefur verið til svarað að það kynni að brjóta í bága við stjórnarskrána. Ég hef efasemdir um þá túlkun vegna þess að slíkar heimildir eru víða til í lögum í kapítalískum þjóðfélögum, sem svo eru kölluð, sem búa við stjórnarskrá sem mjög er svipuð íslensku stjórnarskránni. Þess vegna tel ég að það væri undarlegt ef það mundi brjóta í bága við íslenska stjórnarskrá. Þá er ég auðvitað ekki að tala um að slík lög mundu beinast að einstöku fyrirtæki heldur yrðu þau að vera með almennum hætti sett en þó hægt að brúka þau í tilfellum eins og þessum.