Undirbúningur heimsóknar Yassers Arafats

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:48:58 (4352)

2002-02-11 15:48:58# 127. lþ. 74.1 fundur 328#B undirbúningur heimsóknar Yassers Arafats# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er rétt að það hefur lengi verið til tals að Yasser Arafat komi til Íslands. Það hefur einkum komið til tals í tengslum við heimsóknir hans til annarra Norðurlanda. Þetta hefur oft komið upp í viðræðum við fulltrúa Palestínumanna sem komið hafa hingað til lands og einnig þá sem átt hafa samtöl við okkur í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Hins vegar hefur aldrei verið tekin endanleg ákvörðun um hvort hann sjái sér það fært eða hvort aðstæður séu til að hann komi hingað til lands. Það stendur hins vegar opið að hann geti það þegar báðum aðilum hentar.

Einnig hefur verið lögð áhersla á það af fulltrúum Palestínumanna að ég sem utanrrh. heimsæki þetta svæði. Einnig hafa Ísraelsmenn lagt á það mikla áherslu. Af því hefur ekki getað orðið enn sem komið er en það er fullur áhugi fyrir því af okkar hálfu að sá dagur komi að lýðræðislega kjörinn leiðtogi Palestínumanna komi hingað til lands. Við höfum líka áhuga á að finna aðstæður til þess að heimsækja fulltrúa þessarar þjóðar og þessa þjóð fyrir botni Miðjarðarhafs.