2002-02-11 19:13:57# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[19:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson flutti ágæta og mjög málefnalega ræðu. Ef allir ræddu stóriðjumál á þennan hátt þá væri það til góðs. En ég er ósammála honum engu að síður um nokkur veigamikil atriði.

Ég tel t.d. mjög varasamt að bera saman Grundartanga annars vegar og framkvæmdir á Austurlandi hins vegar, einvörðungu sé litið á stærðarhlutföll. Á Austurlandi erum við að tala um virkjun á stærð við allar aðrar virkjanir í landinu sem mundi framleiða eins mikla raforku og við notum til landsins alls núna. Stærðarhlutföll í verksmiðjunni eru hin sömu á atvinnusvæði sem er miklu minna. Hagfræðingar og einnig fjármálasérfræðingar Landsvirkjunar hafa bent á að þegar þessar fjárfestingar eru skoðaðar út frá arðsemissjónarmiðum séu þær ekki ráðlegar. Við erum að tala um tilkostnað við hvert starf upp á 400 millj. kr. Menn benda einfaldlega á að hægt sé að verja þessum fjármunum miklu skynsamlegar til atvinnuuppbyggingar.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna lýtur að banka- og viðskiptalífinu. Við talsmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum bent á það við þessa umræðu að í skýrslu um byggðaáætlun sé bent á að því sé ekki að leyna að bankarnir reyni að komast hjá því að veita há lán til langs tíma til fyrirtækja á smáum stöðum. Við höfum vakið athygli á því að bankarnir sem á sínum tíma voru ríkisbankar og litu á sig sem þjónustustofnanir við landið allt hafa ekki trú á smáum byggðarlögum og vegna þeirra fordóma neita þeir þessum byggðarlögum um eðlilega lánafyrirgreiðslu.