2002-02-11 19:33:40# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[19:33]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs að nýju eru ummæli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur sem í andsvari við hv. þm. Jóhann Ársælsson vék að málflutningi þriðja aðila, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Hún vildi láta í veðri vaka að við hefðum mismunandi afstöðu til virkjana og stóriðju eftir því hvaða landshluti ætti í hlut.

Þetta er mikill misskilningur. Ég brást við málflutningi hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, sem fór mjög málefnalega yfir stöðuna á Grundartanga og á hvern hátt hann teldi stóriðju þar hafa styrkt atvinnulífið og leiddi getum að því að hið sama mundi gerast á Austurlandi. Hann tók fram að þessu væri ekki saman að jafna þegar litið væri til stærðargráðunnar en ég taldi hann ekki hafa kveðið nógu fast þar að orði og sagði að afar erfitt væri að bera þessa hluti saman.

Á Austurlandi erum við að tala um mestu fjárfestingu á vegum opinberra aðila nokkru sinni, vel á fjórða hundrað milljarða kr. þegar litið er til virkjunarinnar og álframkvæmdanna. Einnig er um að ræða atvinnusvæði sem er miklu fámennara en hér vestan lands. En það sem meginmáli skiptir að mínum dómi eru þau áhrif sem þessar framkvæmdir mundu hafa á efnahagslífið í heild sinni. Ég tel að þessum fjármunum sé mjög illa varið. Það hefur verið sýnt fram að hvert starf mundi kosta um 400 millj. kr., næstum hálfan milljarð.

Ég hef hlustað á hagfræðinga, vinstri sinnaða og hægri sinnaða ekki síður, sem hafa varað við þessum framkvæmdum og talið ráðlegra að við beindum fjármagni aðrar leiðir til að stuðla að atvinnuuppbyggingu á Austurlandi og Íslandi almennt.

Ég hef hlustað á röksemdir þeirra, ég hef hlustað á raddir innan Landsvirkjunar og tek þau sjónarmið alvarlega. Þess vegna er ég þessarar skoðunar fyrir utan þá ástæðu sem vegur að sjálfsögðu þyngst, sem lýtur að náttúru landsins og þeim óafturkræfu náttúruspjöllum sem þessar framkvæmdir mundu hafa í för með sér.