Rafeyrisfyrirtæki

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:56:10 (4430)

2002-02-12 13:56:10# 127. lþ. 75.3 fundur 454. mál: #A rafeyrisfyrirtæki# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um rafeyrisfyrirtæki sem er 454. mál á þskj. 724.

Með rafeyrisfyrirtækjum er átt við tilteknar lögpersónur sem hafa með höndum útgáfu og umsýslu með rafeyri. En hvað er rafeyrir? Samkvæmt frv. er átt við peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda, sem eru geymd á rafrænum miðli og gefin út í skiptum fyrir fjárhæð sem er ekki lægri en hin útgefnu peningalegu verðmæti og samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda. Því falla einungis undir gildissvið frv. þau fyrirtæki sem gefa út rafeyri í svokölluðu opnu kerfi.

Í frv. er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki skuli vera hlutafélag og það verði ekki stofnað með lægra hlutafé en 90 millj. kr. Þó má hlutafé aldrei nema lægri fjárhæð en jafngildi einnar millj. evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

Þá er kveðið á um sömu takmarkanir að því er eigið fé rafeyrisfyrirtækja varðar. Þá er í frv. tryggður réttur handhafa rafeyris til innlausnar hans. Settar eru takmarkanir á starfsemi rafeyrisfyrirtækja fyrir utan útgáfu rafeyris og takmörkun á leyfilegri fjárfestingarstefnu þeirra. Er það gert til að tryggja að rafeyrisfyrirtæki geti ávallt staðið við skuldbindingar sínar um innlausn. Einnig er kveðið á um eftirlit með rafeyrisfyrirtækjum. Loks gilda um rafeyrisfyrirtæki að nokkru leyti svipaðar reglur og um viðskiptabanka og sparisjóði og er því vísað til þeirra laga í frv.

Frv. byggir á tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2000/46/EB og nr. 2000/28/EB frá 18. sept. 2000 og gerir tillögu að innleiðingu þeirra í íslenskan rétt. Nauðsynlegt er að innleiða tilskipanirnar fyrir 27. apríl nk.

Í janúar 2001 fól ég svokallaðri bankalaganefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lög á sviði fjármagnsmarkaðar að gera tillögu að innleiðingu tilskipananna. Umrætt frv. var unnið í ráðuneytinu í samráði við hana. Nefndin mun hins vegar leggja til að ákvæði um rafeyrisfyrirtæki verði hluti af frv. til laga um fjármálafyrirtæki sem fyrirhugað er að leggja fram á næsta löggjafarþingi. Nauðsynlegt er hins vegar að leggja fram umrætt frv. fyrir þetta þing svo að tilskipanir verði innleiddar í íslenskan rétt á réttum tíma.

Hæstv. forseti. Ég mæli með því að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og til hv. efh.- og viðskn.