Rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:09:52 (4433)

2002-02-12 14:09:52# 127. lþ. 75.4 fundur 489. mál: #A rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta# (EES-reglur) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Ég hygg að við stöndum núna á árdögum mikilla breytinga og við erum rétt aðeins farin að kynnast því hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Hv. síðasti ræðumaður kvartaði undan ruslpósti. Sá póstur á eftir að vaxa mjög verulega nema á því verði tekið og verða mönnum til mikils ama.

Við sjáum nú þegar áhrif þessara breytinga í fjármálastarfsemi þar sem menn geta átt öll sín viðskipti á netinu nema ef menn skyldu slysast til að fá ávísun senda í pósti, þá þarf maður að fara í banka. Fjölmiðlar eru orðnir mjög fyrirferðarmiklir á netinu og ég sé þar í framtíðinni koma menntakerfið o.fl. Ég hygg að verði þetta frv. að lögum þá muni það ekki standa lengi óbreytt vegna þess að menn munu þurfa að taka mjög fljótlega á því síbreytilega umhverfi sem netið er og öll rafræn þjónusta. Ég hygg því að þetta sé fyrsta skref, mjög nauðsynlegt skref til að taka á þessum málum. Ég skora á hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar að leggjast mjög ítarlega yfir þessi atriði og sjá hvort ekki megi jafnvel bæta um betur.