Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:52:49 (4444)

2002-02-12 14:52:49# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að þeir sem er trúað fyrir að deila út fé geri það eftir bestu vitund og að þeir reyni að vera heiðarlegir í störfum sínum. Í þessari till. til þál. um stofnstyrkina er gert ráð fyrir ákveðnum reglum, það eru stífar og ákveðnar reglur sem gilda um þetta, en ekki bara að fénu sé ausið út í hitt og þetta af því að einhver kemur og segir: Nú ætla ég að gera þetta eða nú ætla ég að gera hitt. Menn leggja fram ákveðnar áætlanir og ákveðnar hugmyndir og skírskota til annars sem er að gerast í veruleikanum. Það er það sem verið er að ræða um.

Um daginn var verið að breyta skattaumhverfinu hér fyrir fyrirtæki þannig að tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður. Til að vega upp á móti þeirri lækkun var tryggingagjaldið hækkað. Og hver greiðir tryggingagjaldið? Eru það ekki fyrirtæki líka? Með breytingunum var einfaldlega verið að flytja fjármagn úr fyrirtækjum úti á landsbyggðinni yfir í fyrirtæki hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er hugsjónin og draumurinn.

Við samfylkingarmenn erum hér með þáltill. sem vinnur á móti þessu. Við erum margbúin að benda á þetta með tryggingagjaldið og munum halda því áfram.

Það er svolítið skondið að hæstv. ríkisstjórn nefnir í væntanlegri byggðaáætlun sinni sem verður lögð hérna fram, að athuga þurfi með tryggingagjaldið sem nýbúið er að breyta, nýbúið er að hækka á lítil fyrirtæki úti á landsbyggðinni. Hefði ekki verið betra að afnema það til að gera fyrirtækjunum kleift að starfa í eðlilegu umhverfi?